Liverpool gæti nýtt sér ákvæði í samningi Semenyo- Ungur miðjumaður á blaði hjá Liverpool og Man Utd - West Ham vill Strand Larsen
banner
   mán 22. desember 2025 11:00
Kári Snorrason
Með háleit markmið á Húsavík - „Að sjálfsögðu stefnum við á umspilssæti“
Lengjudeildin
Mynd: patrickdewilde.com
Patrick De Wilde, nýráðinn þjálfari Völsungs, stefnir á að ná umspilssæti með liðinu á komandi tímabili í Lengjudeildinni. De Wilde var kynntur á dögunum sem nýr þjálfari Völsungs, en það má með sanni segja að hann sé heimsborgari.

Belginn hefur komið víða við á þjálfaraferlinum en hann þjálfaði síðast kvennalandslið Nepal, þar áður var hann við stjórnvölinn hjá karlalandsliðum Sómalíu og Rúanda í Afríku.

Einar Már, fréttaritari Fótbolti.net á Húsavík, ræddi við De Wilde fyrir helgi og spurði hann út í komandi tímabil.

Hugmyndafræðin miðast út frá hópnum
„Leikstíllinn minn miðast út frá því að vinna fótboltaleiki. Ég hef hugmyndir um hvernig ég geri það en ég er enginn Guardiola. Ég verð að vinna út frá liðinu sem ég hef, ég get ekki keypt leikmenn einungis út frá hugmyndafræðinni minni. Ef ég vil spila með þrjá hafsenta verður liðið að geta boðið upp á það.

Þess vegna er erfitt að segja til um hvernig við munum spila og þess vegna erum við með undirbúningstímabil. Við munum sækja til sigurs og reyna að skora sem flest mörk. En ef þú horfir á síðasta tímabil fékk liðið of mörg mörk á sig, það vantaði upp á jafnvægið. Að finna jafnvægið er fyrsta verkefnið okkar.“


Stefnir á umspilið
„Ég er óhræddur við að setja markmið. Ef þú setur ekki markmið ertu ekki með metnað. Þú verður að stefna eins hátt og mögulegt er. Að sjálfsögðu stefnum við að ná umspilssætinu. Við enduðum í 7. sæti á síðasta tímabili og tvö lið úr efstu fimm eru farinn upp í efstu deild. Auðvitað féllu tvö lið en við viljum stefna hátt.“

„Ég hef horft á leiki frá síðasta tímabili, en nú er nýtt tímabil. Það er ekki eins og ég sé að taka við á miðju tímabili. Það er tími fyrir undirbúning, nýja leikmenn og ég byrja með autt blað. Ef við sækjum nýja leikmenn þurfa þeir að vera góðir og hafa eitthvað sem aðrir í liðinu hafa ekki. Erlendur leikmaður getur ekki komið í veg fyrir tækifæri ungra heimamanna.“

Mun nýta tengingarnar
De Wilde hefur komið víða við og var spurður hvort að hann muni nýta tengingar sínar þegar kemur að leikmannamálum.

„Að sjálfsögðu, síðan er þetta spurning um kostnað. Það er það sem leikmenn og umboðsmenn hugsa strax um. Þetta er eins og þú kaupir nýjan bíl - þá er þetta spurning um kostnað. Þú ferð annað hvort í Skoda eða Benz út frá kostnaði.“
Ævintýraþjálfari Völsungs: Þegar þú ferðast um heiminn verður þú að taka ákvarðanir hratt
Athugasemdir