Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mið 23. apríl 2014 15:15
Tryggvi Þór Kristjánsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Trúðaskóli Glazer og kó
Tryggvi Þór Kristjánsson
Tryggvi Þór Kristjánsson
David Moyes, stjóri Manchester United.
David Moyes, stjóri Manchester United.
Mynd: Getty Images
Það eru skiptar skoðanir á Glazer.
Það eru skiptar skoðanir á Glazer.
Mynd: Getty Images
Moyes að stýra æfingu.
Moyes að stýra æfingu.
Mynd: Getty Images
Kannski ég byrji þennan pistil á þessu: Það var kolrangt hjá Manchester United að reka David Moyes. Já, ég sagði það. Með þessum gjörning hefur Glazer fjölskyldan opinberað sig fyrir nákvæmlega það sem hún er – kaupsýslumenn með engan skilning á íþróttinni. Reyndar miðað við umræðuna í kringum Moyes í vetur þá kemur þetta kannski ekki á óvart, en ég átti nú von á að eigendurnir hefðu kúlur í þetta. Þess í stað falla þeir við fyrstu hindrun.

TAUGAVEIKLUN
Það er nefnilega ekki nóg að tala fjálglega um stöðugleika þegar vel gengur, menn verða líka að hafa pung þegar aðeins blæs í bakseglin. Við stuðningmenn United höfum í gegnum tíðina brosað út í annað þegar smærri klúbbar eins og t.d. Liverpool eða Blackburn Rovers hafa ótt og títt skipt um stjóra þegar illa hefur gengið. Við höfum með kassann úti talað um styrk okkar, sem hefur falist í stöðugleikanum í tíð Ferguson. Einn maður við stýrið í 26 ár, það er stöðugleiki, það er styrkur, það er ástæða þess að United varð stórveldi. Svo fara menn á taugum eftir tæpa 10 mánuði þegar aðeins blæs í móti. Þvílíkur aumingjaskapur, svo ekki sé talað um skömmina af því hvernig Moyes var látinn hanga í tæpan sólarhring.

ÓBOÐLEG SPILAMENNSKA
Ég er ekki að segja að ég sé ánægður með spilamennsku okkar í vetur. Þvert á móti hefur hún á köflum verið hreinlega vond, við höfum stundum litið út eins og hópur af einstaklingum en ekki lið. Framan af vetri var hrikalegt að horfa upp á slitið lið og alltof djúpa varnarlínu. Sumir leikmenn hafa litið út eins og hræddar litlar kanínur í mestallan vetur, enda pressan ómannleg. Sjálfstraust hefur skort, trú á verkefnið, vissuna um sigur sem við höfðum þegar Ferguson stjórnaði. Ég er sumsé algerlega sammála þeim sem hafa gagnrýnt spilamennskuna – hún hefur alltof oft ekki verið boðleg. Það eru hinsvegar margir þættir sem huga þarf að í þessum efnum, ekki bara knattspyrnustjórinn.

HEIMATILBÚIN PRESSA
Er þetta allt saman Moyes að kenna? Auðvitað ekki. Það er samt alltaf þannig að knattspyrnustjóri ber ábyrgð á sínu liði, en í þessu tilfelli er myndin mun stærri. Margir hafa upplifað að vera á vinnustað þar sem nýr yfirmaður kemur inn og á að segja til hópi reyndra starfsmanna. Munið þið hvernig það var? Hvað haldið þið að gerist þegar verður til risastórt power-vakúm innan klúbbsins þegar Ferguson hættir? Við erum að tala um mann sem hélt í alla spotta innan klúbbsins í meira en tvo áratugi. Halda menn virkilega að allir hafi róað í sömu átt? Nei, klárlega ekki. Moyes hefur þurft að díla við heimakæra hunda í hverju horni, leikmenn og aðra sem hafa verið lengi hjá klúbbnum. Þetta atriði má ekki vanmeta og það er ljóst að þegar samstaðan er ekki algjör þá mun það alltaf koma niður á spilamennsku.

UTANAÐKOMANDI PRESSA
Annan í páskum bauð Manchester Evening News upp á clockwatch gagnvart starfsöryggi David Moyes. Hrikalega skítlegt hjá miðli sem vanalega er hægt að treysta sæmilega. Þetta er eitt lítið dæmi um hvernig fjölmiðlar hafa hagað sér gagnvart David Moyes og klúbbnum í vetur. Menn hafa greint auðvelda bráð, risa að falla. Það varð til snjóbolti sem hefur bara stækkað og stækkað þar til engin fékk við neitt ráðið. Sumar fréttirnar sem birst hafa eru svo fáránlegar að það er hreinlega fyndið. Allar hafa þær þó haft það að markmiði að setja meiri pressu á klúbbinn, liðið og Moyes. Það eru gömul sannindi að fréttamönnum finnst ekkert skemmtilegra en að fella menn af toppnum og rífa í sig. Ég verð líka að segja að ég vorkenni þeim sem ekki lesa ensku og kunna ekki að filtera sig í gegnum ruslpressuna í Englandi. Reglan í íslensku miðlunum virðist vera að því heimskulegri og rætnari fréttirnar eru, því líklegra er að íslenskir miðlar birti þær. Því stærri og svakalegri fyrirsagnirnar, því betra. Ekki það að David Moyes hafi látið sig íslenska miðla varða, en þessi utanaðkomandi pressa hefur haft gríðarleg áhrif á hann og liðið í vetur. Heimspressan beið með öndina í hálsinum eftir hvaða litlu mistökum sem gerð voru og hún varð ekki svikin. Moyes að fóta sig í stærsta starfi fótboltans, að fylgja eftir besta stjóra sögunnar, með leikmannahóp sem getur á góðum degi talist sá 3-4 besti í Englandi og framundan endurbygging hans, að lágmarki 3 varnarmenn meidda á hverjum tíma, í besta falli léttir á miðjunni, van Persie mikið meiddur og ekki í formi.. hvernig gat þetta orðið annað en erfitt? Það hjálpaði heldur ekki að sumir „stuðningsmenn“ hoppuðu fúslega á vagninn og hjálpuðu til við fallið.

RANGAR ÁLYKTANIR
Nú er tískan að segja að Moyes hafi einfaldlega ekki valdið starfinu, eða að hann hafi „ekki verið rétti maðurinn“. Þetta er vitleysa. Hann átti við ofurefli að etja frá fyrsta degi og hverjum mistökum var refsað grimmilega. Og hann gerði mistök, það er klárt, en mér finnst rosalega kjánalegt að afskrifa hann sem einhvern lítinn kall þegar ferill hans er frábær og hann margbúinn að sanna sig sem fagmann og heiðursmann. Það skiptir líka máli hver þú ert, ekki bara úrslit. Sjáið bara viðtalið við Mourinho eftir Sunderland leikinn – þessi maður hefði klárlega höndlað starfið betur (líklega sá eini sem hefði höndlað það) strax á eftir Ferguson, en viljum við svona trúð, með hans endalausa væl og neikvæða fótbolta? Nei, ekki ég allavega.

RÖNG ÁKVÖRÐUN
Í mínum huga er ekki nokkur spurning um að Moyes hefði gert United að stórveldi aftur, jafnvel strax á næsta tímabili þegar leikmannahópurinn mun líta öðruvísi út. Það er auðvelt að benda á rangar ákvarðanir, taktískar og aðrar í vetur hjá Moyes og álykta að hann sé ekki rétti maðurinn. Það er auðvelt, en það er ekki skynsamlegt. Fótboltinn er ekki nákvæm vísindi og eins og ég hef bent á þá er auðvelt að lenda í stormi án þess að neitt verið við ráðið, þegar hlutirnir byrja að fara úrskeiðis. Það var það sem gerðist. Allt þetta segir lítið um manninn og knattspyrnustjóran David Moyes. Að mínu viti er hann einn af fáum sem hafa haldið reisn sinni í gegnum þetta allt. Nú á svo að ráða nýjan mann. Nú fær einhver annar að berjast við þetta skrímsli sem klúbburinn er, í stað þess að láta Moyes halda áfram reynslunni ríkari eftir fyrsta tímabilið. Það besta við þetta allt er auðvitað að menn vissu vel að þetta fyrsta tímabil yrði mjög erfitt. Þetta á ekki að koma neinum á óvart, með þau umskipti sem eru í gangi og ástandið á leikmannahópnum. Öll þessi statistík sem menn eru að horfa á og réttlæta þessa vitleysu með, þetta þarf ekkert að koma neinum á óvart. Samt fara menn á taugum.

STÖÐUGLEIKI?
Menn halda sumsé að grasið sé grænna hinum megin við girðingu. Öll rök sem menn töldu sig hafa fyrir ráðningu Moyes í fyrra eru nú ógild. Menn afskrifa hann með einu pennastriki. Ég hélt að minn klúbbur væri öðruvísi, ég hélt að menn hefðu hreðjar í að styðja sinn mann. Nei, við erum engu skárri en hinir. Hér eftir getum við ekki sett kassan fram og greint okkur frá hinum sauðunum. Við rákum knattspyrnustjóra eftir tæpa 10 mánuði við störf. Ég endurtek: Tæpa 10 mánuði! Það hlýtur að vera einhverskonar heimsmet í einfeldni að halda því fram að David Moyes sé slæmur knattspyrnustjóri. Þessi maður var að berjast við erfiðustu aðstæður sem hægt er að bjóða knattspyrnustjóra upp á. Brottrekstur hans er þvílík steypa og skammsýni. Ég skammast mín fyrir hönd Manchester United.

Athugasemdir
banner
banner
banner