Fram 1 Valur 0
Jakob Byström skrifaði í fyrradag undir nýjan tveggja ára samning við Fram. Sænski sóknarmaðurinn gekk í raðir félagsins fyrir tímabilið og hefur skorað sex mörk í 17 deildarleikjum á tímabilinu.
„Í mínum huga var aldrei spurning um annað en að hann yrði áfram. Hann kom til okkar í nóvember fyrir ári síðan, á ættir að rekja til Dalvíkur. Það er falleg saga að segja frá því að íþróttafréttamaðurinn Þorkell Gunnar, Framari, kemur skilaboðum á stjórnina og við ákveðum að skoða drenginn. Jakob kemur til okkar og hefur staðið sig alveg frábærlega," segir Guðmundur Torfason, formaður fótboltadeildar Fram, við Fótbolta.net.
„Við bindum miklar vonir við hann, ég hef mikla trú á honum. Hann er með ákveðna eiginleika sem aðrir hafa ekki, hann hefur hraða og hefur það í sér að skora mörk. Hann hefur gert vel á sínu fyrsta tímabili, má vel við una. Hann er ennþá ungur, einungis tvítugur. Það er virkilegt fagnaðarefni að hann hafi skrifað undir hjá okkur út 2027."
Hljóta að vera gera eitthvað rétt
Það heyrðist af því að Valur hafi haft áhuga á Byström. Valur hefur horft talsvert til Fram; könnuðu möguleikann á því að fá Rúnar Kristinsson í fyrra, Byström núna og Gareth Owen er á leið til félagsins. Hvernig líður þér með að Valur sé að horfa svona mikið til ykkar?
„Ég á rosalega marga vini og félaga í Val. Valur er einn af þessum stóru klúbbum í íslenskri fótboltasögu. Samstarfið í gegnum tíðina hefur verið gott þó að það hafi verið tekist á inn á vellinum."
„Maður bara fagnar því að Valur sé að leita í okkar raðir, það segir að við hljótum að vera gera eitthvað rétt. Eigum við ekki bara að það sé 1-0 fyrir Fram," segir Guðmundur á léttu nótunum.
Athugasemdir