
Ragna Lóa Stefánsdóttir, þjálfari Fylkis í Pepsi-deild kvenna, er mjög bjartsýn á framhaldið hjá liðinu en það tapaði 2-1 fyrir Val í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins í kvöld
Fylkisliðið leit afar vel út í úrslitaleiknum í kvöld en liðið spilaði fína knattspyrnu og var ef eitthvað er betri aðilinn í leiknum. Ragna var ánægð með leik liðsins en hún er afar bjartsýn á framhaldið og að hugsunarháttur leikmanna sé allt annar.
,,Ég verð nú að segja þótt ótrúlegt sé að við erum svekktar að hafa tapað 2-1 fyrir Val sem er líklegast að fara að berjast um toppsætið í deildinni og það segir hvað okkar markmið eru há," sagði Ragna Lóa við Fótbolta.net.
,,Stelpurnar eru að breyta sinni hugsun og þær eru hættar að hugsa að þær eru litla liðið, þær eru að verða eitt af góðu liðunum í Pepsi-deild vonandi þannig að við áttum flottan leik í dag og Valur getur þakkað fyrir þennan sigur."
,,Það er engin spurning og við eigum eftir að bæta við okkur leikmönnum. Við erum að bíða eftir leikmönnum að utan og erum að skoða erlenda leikmenn til að bæta okkur enn meira en mér fannst holningin á mínu liði frábær og við ógnuðum allan tímann."
,,Fyrri hálfleikur var sérstaklega góður og þær voru heppnar að vera ekki undir í hálfleik. Ég var mjög ánægð og gaman hvað við vorum hortugar og sóttum á þær, vorum ekkert að leggjast í vörn."
,,Þegar við vorum að skipta okkar varamönnum inná þá voru þær að skipta landsliðsmönnum á meðan við þurftum að sækja í þriðja flokkinn."
Anna Björg Björnsdóttir, framherji Fylkis, hefur skorað 183 mörk í 193 leikjum fyrir félagið en hún náði sér ekki almenninlega á strik i kvöld. Meiðsli settu strik í reikninginn en það vantaði herslumuninn að sögn Rögnu.
,,Það vantaði herslumuninn á að skora en hún hefur ekkert spilað síðustu leik. Hún hefur verið meidd og við píndum hana því hún hefur verið meidd, svo hún er ekkert hundrað prósent en Guð hjálpi hinum liðunum þegar hún verður hundrað prósent."
Liðstjórn hjá báðum liðum létu vel í sér heyra í leiknum en Ragna segir að Fylkir hafi átt að fá víti undir lok leiks.
,,Dómgæslan var alveg ágæt en mér fannst við algerlega átt að fá víti þarna í lokin og það verður gaman að skoða upptökuna af því. Það hefði breytt leiknum hefðum við jafnað úr þessu víti, þetta var hörkuleikur og allir að rífast svo er það bara búið eftir leik."
Hermann Hreiðarsson, eiginmaður Rögnu Lóu, lét í sér heyra og er kominn í þjálfarateymi Fylkis.
,,Við getum alveg sagt það, á meðan hann er ekki að stjórna öðrum liðum. Það er frábær búbót fyrir okkur að hafa þennan mann með okkur. Hann er hokinn af reynslu og hann er að koma með frábæra punkta og það sýndi sig í kvöld hvað Fylkisliðið spilaði vel en við vorum feykilega vel undirbúnar fyrir þennan leik þannig við erum sáttar," sagði hún að lokum.
Hægt er að sjá viðtalið hér fyrir ofan.
Athugasemdir