Bernardo Silva, leikmaður Manchester City á Englandi, hefur ítrekað það að Liverpool hafi verið langstærsti keppinautur félagsins á síðustu árum.
Á síðasta ári var Bernardo spurður út í helstu keppinauta Manchester City og skaut þar rækilega á Arsenal þar sem hann sagði liðið ekki hafa unnið neitt og því varla hægt að sega að það væri einhver rígur þarna á milli.
Portúgalinn ræddi við Sky Sports fyrir slag Man City gegn Arsenal sem fer fram í dag, en þar segir hann Liverpool enn vera helsta keppinaut Man City.
„Allir þessir slagir eru ólíkir. Ég myndi segja að Manchester United hefur farið í gegnum mjög erfiðan kafla síðustu árin, en þeir eru keppinautar því við deilum sömu borg.“
„Okkar langstærsti keppinautur er Liverpool því þetta er liðið sem hefur alltaf veitt okkur samkeppni um titla og líka tekist að vinna nokkra.“
„Síðan sérðu lið eins og Arsenal sem hefur verið að bæta sig með ári hverju og er núna byrjað að geta barist um titla þó það hafi ekki enn afrekað það.“
„Enn eins og ég segi þá er þetta allt saman mjög ólíkt, en til þessa hefur Liverpool alltaf verið okkar helsti keppinautur,“ sagði Silva.
Arsenal tekur á móti Man City á Emirates-leikvanginum klukkan 15:30 í dag. Arsenal er í 3. sæti með 9 stig eftir fjóra leiki en Man City í 12. sæti með 6 stig.
Athugasemdir