Jasmín Erla Ingadóttir átti stórleik er Stjarnan fagnaði 7-1 stórsigri á Aftureldingu í Bestu deildinni í gær. Hún er markahæst í deildinni með 10 mörk og nýtur sín best fremst á miðjunni, en segir það ákveðin vonbrigði að hafa ekki verið valin í landsliðshópinn fyrir verkefnið í september.
Jasmín skoraði þrennu fyrir Stjörnuna í gær en hún er að eiga sitt besta tímabil fyrir Stjörnuna.
Hún missti af byrjun síðasta tímabil þar sem hún gekk með barn fyrir það tímabil en snéri svo aftur í júni og meiddist. Síðasti vetur fór því í að koma til baka og því mikil erfiðisvinna á bakvið þennan árangur í sumar.
„Mikil vinna. Þetta er búið að vera helvíti erfitt. Maður kom til baka í fyrra og meiddist strax og veturinn fór í það að vinna og vinna í því að koma sem best til baka," sagði Jasmín við Fótbolta.net í gær en hún talaði einnig um hvað hún nýtur sín í að spila fremst á miðju; sem er hennar staða á vellinum.
„Já, ég hef náttúrulega aldrei fengið að vera fremst á miðju. Ég hef alltaf verið djúp og er loksins að fá að spila mína stöðu."
Jasmín er markahæst með tíu mörk í deildinni, þremur mörkum meira en Danielle Julia Marcano og Brenna Lovera. Hún segir það plús ef hún verður markadrottning í lok tímabilsins.
„Það væri bónus og mikill plús en við erum að horfa á annað sætið, fyrst og fremst og ætlum að ná því. Ég ætla að setja eins mörg mörk og ég get og ef það skilar gullskó þá er ég náttúrulega ánægð með það," sagði hún.
Ekki nóg til að komast í landsliðshópinn
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska landsliðsins, valdi hóp sinn fyrir verkefnið gegn Hvíta-Rússlandi og Hollandi á dögunum, en Jasmín er ekki í hópnum. Hún segir það smá vonbrigði að fá ekki tækifærið, enda hennar langbesta tímabil til þessa og verið með bestu leikmönnum deildarinnar í sumar.
„Já, alveg smá. Þetta er mitt besta tímabil og ég er að skila inn mörkum. Ég veit ekki hvað ég þarf að gera meira," sagði Jasmín í lokin.
Athugasemdir