Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 25. mars 2021 21:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Györ, Ungverjaland
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Eftir fyrsta leik: Stór spurningarmerki og skrítin svör
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Starfsmaður Fótbolta.net sem horfði á leik Rússlands og Íslands á Alcufer stadion í Ungverjalandi spyr sig spurninga eftir leik dagsins í dag.

Tvennt kom honum á óvart í liðsuppstillingu liðsins í dag. Þeir Kolbeinn Þórðarson og Stefán Teitur Þórðarson komu inn í liðið frá líklegu byrjunarliði fyrir leik. Þeir Kolbeinn Birgir Finnsson og Mikael Neville Anderson byrjuðu á bekknum.

Ætlunin er ekki að ráðast að neinum með þessum skrifum frekar vekja athygli á minni upplifun. Ég skipti yfir í fyrstu persónu.

Hörður Ingi Gunnarsson er vanur því að spila í vinstri bakverði þó hans draumur sé að spila hægra megin og var hann sóttur til FH sem slíkur, eða svo segir allavega sagan. Hann hefur vissulega leyst vinstri bakvörðinn oft á tíðum þegar Alfons Sampsted hefur verið í hópnum. Þá stöðu leysti hann í kvöld og fannst mér það hefta hann í þeim fáu sóknaraðgerðum sem hann tók þátt í í kvöld.

Kolbeinn Þórðarson byrjaði í hægri bakverði og virkaði á mig eins og honum liði alls ekki vel, Rússarnir sóttu meira upp vinstri vænginn sinn og áttu auðvelt með að valda usla. Kolbeinn lenti reglulega á eftir sínum manni og gekk samvinnan við þá Stefán Teit og Ísak Bergmann Jóhannesson illa. Kolbeinn er fjölhæfur miðjumaður sem hefur leyst margar stöður með liði sínu í Belgíu.

Ísak Bergmann átti langt í frá sinn besta dag og tók hann undir það í viðtali í kvöld. Ísak fékk lítið boltann og komst illa í takt við leikinn á þeim rúma klukkutíma sem hann fékk.

Fyrri spurningin er sú: Valgeir Lunddal Friðriksson er augljóslega tæpur, af hverju eru einungis tveir eiginlegir bakverðir í hópnum og núna einn sem gat byrjað leikinn í kvöld?

Það kemur alltaf upp sú spurning hverjum ætti að fórna fyrir annan leikmann, ég ætla ekki að setjast í það dómarasæti heldur einungis benda á það að fyrir leikinn í kvöld virtist einn bakvörður leikfær. Heima sitja Valgeir Valgeirsson, Davíð Ingvarsson, Rúnar Þór Sigurgeirsson, Birkir Valur Jónsson og Hjalti Sigurðsson af þeim sem hafa verið hvað næst hópnum.

Jú, Kolbeinarnir tveir geta leyst bakvarðastöðurnar og öðrum þeirra var treyst fyrir því í kvöld. Niðurstaðan alls ekki ásættanleg og miklu meira en einum bakverði um að kenna.

Þá aftur að Ísaki Bergmann, hann færðist af miðjunni út á hægri vænginn frá líklegu byrjunarliði þar sem Mikael Neville Anderson byrjaði á bekknum. Fréttaritari fékk þær upplýsingar fyrir mót að Mikael væri tæpur í nára og hefði farið af velli gegn Vejle vegna nárameiðsla.

Davíð Snorri svaraði því í viðtali á þriðjudag að Mikael væri heill og ákvað fréttaritari að trúa því allt þar til hann sá liðsvalið í dag. Mikael Neville Anderson, leikmaður Danmerkurmeistaranna í FC Midtjylland, á bekknum. Af hverju í ósköpunum?

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari liðsins, var spurður út í Mikael á blaðamannafundi eftir leik, er hann fullkomlega heill?

„Mikael? Já, hann er heill," svaraði Davíð.

Hver er pælingin að byrja með hann á bekknum, er það lítið leikform eða hvað er það?

„Nei, við höfum úr góðum hópi að velja og þetta var bara það sem við töldum réttast fyrir þennan leik. Þetta eru þrír leikir og við reynum að púsla því saman, það er ástæðan."

Mikael Neville var fljótur á samfélagsmiðla eftir leik og sagði fréttina um nárameiðslin, sem undirritaður skrifaði, 'fake news' eða falsfréttir.

„Við höfum úr góðum hópi að velja." Þau orð sitja svolítið í greinarhöfundi. Er hópurinn virkilega það góður að þú byrjar ekki með leikmann inn á , sem er jafngóður og Mikael er, og geymir á bekknum?

Mér finnst það furðulegt. Það má mjög vel vera, og í raun vona ég, að Mikael sé 100% klár og að upplýsingarnar hafi verið rangar. En svar Davíðs var allavega ekki að sannfæra mig neitt.

Fréttaritari sóttist eftir að fá að ræða við Mikael í viðtali eftir leik en það fékkst ekki í gegn.

Svo það komi skýrt fram, ég er enginn þjálfari og er alls ekki að þykjast vita meira eða betur en þjálfari liðsins, rosalega auðvelt að vera vitur eftir á.

Megi ganga betur gegn Danmörku í næsta leik sem er á sunnudag, mótið er langt í frá búið.
Athugasemdir
banner
banner
banner