Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   lau 25. maí 2024 16:38
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Grótta sigraði í dramatískum sjö marka leik
Jafnt á Akureyri
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Tveimur leikjum var að ljúka í Lengjudeild karla þar sem Grótta hafði betur í dramatískum sjö marka leik gegn Leikni R. á meðan Þór og Keflavík skildu jöfn á Akureyri.

Lestu um leikinn: Grótta 4 -  3 Leiknir R.

Það var gríðarlegt fjör á Seltjarnarnesi þar sem Patrik Orri Pétursson skoraði strax eftir fimm mínútna leik með laglegu skoti úr D-boganum, en þremur mínútum síðar svaraði Hjalti Sigurðsson með jöfnunarmarki fyrir Leikni R.

Hjalti skoraði eftir góðan undirbúning frá Róberti Haukssyni, sem skoraði svo sjálfur til að taka forystuna á 25. mínútu. Róbert skoraði úr auðveldu færi eftir góða fyrirgjöf frá Omar Sowe og voru heimamenn næstum því búnir að jafna í tvígang eftir það en boltinn rataði ekki í netið. Gestirnir úr Breiðholti leiddu því í leikhlé, 1-2, eftir að hafa verið með mikinn vind í bakið í fyrri hálfleik. Grótta var með vindinn í bakið á heimavelli sínum í síðari hálfleik.

Omar Sowe byrjaði á að eiga hættulegan skalla í upphafi síðari hálfleiks en skömmu eftir það jafnaði Damian Timan metin þegar hann fylgdi góðu skoti frá Tareq Shihab eftir með marki.

Leiknismenn komust nálægt því að taka forystuna en heimamenn svöruðu með að skora gegn gangi leiksins, eftir hornspyrnu á 71. mínútu. Varnarjaxlinn Arnar Daníel Aðalsteinsson skoraði markið.

Leikurinn dó örlítið niður þegar Grótta tók forystuna en Leiknismenn lögðu allt í sóknarleikinn á lokakaflanum og uppskáru vítaspyrnudóm á 87. mínútu eftir að Omar Sowe slapp í gegn. Omar skoraði sjálfur af vítapunktinum til að jafna leikinn í 3-3 en dramatíkinni var ekki lokið, því heimamenn áttu eftir að eiga síðasta orðið.

Arnar Daníel var aftur á ferðinni í uppbótartíma venjulegs leiktíma þegar Grótta fékk aukaspyrnu sem Damian Timan málaði á kollinn á Arnari sem skoraði með öðru skallamarki. Leiknismenn gátu ekki svarað þessu á lokamínútunum og niðurstaðan 4-3 sigur Gróttu eftir gríðarlega spennandi slag.

Grótta er í þriðja sæti eftir þennan sigur, með 8 stig úr 4 umferðum. Leiknir situr eftir með 3 stig.

Grótta 4 - 3 Leiknir R.
1-0 Patrik Orri Pétursson ('5)
1-1 Hjalti Sigurðsson ('8)
1-2 Róbert Hauksson ('25)
2-2 Damian Timan ('53)
3-2 Arnar Daníel Aðalsteinsson ('71)
3-3 Omar Sowe ('88 , víti)
4-3 Arnar Daníel Aðalsteinsson ('91)

Lestu um leikinn: Þór 1 - 1 Keflavík

Á Akureyri byrjuðu Þórsarar af krafti gegn Keflavík en tókst ekki að nýta tvö frábær færi. Leikurinn jafnaðist út í kjölfarið og tóku gestirnir forystuna með góðu marki frá Mamadou Diaw, sem skoraði eftir frábæran undirbúning frá Sami Kamel sem vann boltann hátt uppi á vellinum og gaf svo góða sendingu.

Keflavík leiddi 0-1 í leikhlé og gerði vel að loka á Þórsara í síðari hálfleik, sem reyndist afar bragðdaufur. Þór fann lítið af glufum á vörn Keflavíkur en að lokum tókst þeim að gera jöfnunarmark, þegar Árni Elvar Árnason skoraði glæsilegt mark með flottu skoti úr erfiðu færi í D-boganum.

Það færðist mikið fjör í leikinn við þetta jöfnunarmark þar sem bæði lið reyndu að sækja til sigurs, en inn vildi boltinn ekki og urðu lokatölur 1-1.

Þórsarar eru enn taplausir eftir fjórar fyrstu umferðirnar á nýju tímabili en þeir sitja í fjórða sæti með 6 stig. Keflavík er með 4 stig.

Þór 1 - 1 Keflavík
0-1 Mamadou Diaw ('40)
1-1 Árni Elvar Árnason ('79)
Athugasemdir
banner
banner
banner