„Fannst þetta bara hörkuleikur, lokaður leikur. Lítið kannski um færi, sérstaklega í fyrri hálfleik. Mér fannst við verja teiginn okkar mjög vel, en ég er ósáttur með spilamennskuna okkar fram á við. Fannst við ekki spila nógu vel, ekki nógu öruggir á bolta og spilum honum ekki nógu vel fram á við. Hefðum getað gert betur þar. Það er svona það sem að er mest svekkjandi,'' sagði Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir 1-0 tap gegn KA í Bestu-deild karla í kvöld.
Lestu um leikinn: KA 1 - 0 Afturelding
Mikil barátta einkenndi leikinn og vantaði stundum uppá gæðin á síðasta þriðjungnum. Þau komu í formi Hallgríms Mars Steingrímssonar á 80. mínútu og Magnús Már hrósaði Hallgrími eftir leikinn.
„Þessi leikur ræðst náttúrulega bara á einstaklingsframtaki frá Hallgrími Mar. Það eru ekki margir leikmenn sem að geta tekið boltann á verri fætinum og smellt honum í skeytin af af 25 metra færi, þannig að það er sem að drepur þetta, því miður.''
Aron Jóhannsson var ekki í leikmannahópi Aftureldingar vegna meiðsla í dag, en meiðsli hans eru ekki alvarleg. Þá kallaði Magnús eftir stuðningi úr Mosfellsbænum þegar að Valsarar mæta í heimsókn.
„Aron fékk smá högg á æfingu í vikunni. Hann verður vonandi klár aftur bara í næsta leik í Mosfellsbæ á fimmtudaginn. Mætum Val þá og við þurfum að fá alla Mosfellinga með okkur í lið þar og gera betur en í dag. Það vantaði smá "power" í okkar spilamennsku. Allir leikmenn hefði getað gert betur þar,'' sagði Magnús Már.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.