Ástralski stjórinn Ange Postecoglou segist ekki hafa hugsað ummæli sín í gegn í skrúðgöngu Tottenham eftir að liðið vann Evrópudeildina og að hann hafi ekki rætt við félagið um framtíð sína.
Postecoglou tókst eitthvað sem engum stjóra Tottenham hefur tekist síðustu sautján ár og það er að vinna titil.
Brennan Johnson skoraði markið mikilvæga sem tryggði Tottenham 1-0 sigur á Manchester United í úrslitaleik Evrópudeildarinnar og var um leið Meistaradeildarsætið tryggt.
Tottenham hélt skrúðgöngu í Lundúnum og þar lét hann stór ummæli falla.
Í september á síðasta ári sagði hann í viðtali að hann skilaði alltaf titli á öðru ári sínu og stóð hann við það loforð. Í skrúðgöngunni gekk hann enn lengra.
„Ég ætla að hafa þetta sem lokaorð. Það er þannig með sjónvarpsþætti að sería þrjú er alltaf betri en númer tvö,“ sagði Postecoglou sem var þá að ýja að því að næsta tímabil yrði enn betra, en hann sér örlítið eftir þeim ummælum.
Hann mætti á blaðamannafund fyrir lokaleik Tottenham á tímabilinu og ræddi þar framtíð sína.
„Ég hefði átt að hugsa þetta aðeins betur því stundum er aðalkarakterinn drepinn,“ sagði Postecoglou og hló, en hann er samt sem áður sannfærður um að hann sé að byggja upp spennandi lið.
„Ég sagði fyrir leikinn að tilfinningin væri sú að við erum að byggja eitthvað. Þetta er spennandi og ég er núna með hóp af leikmönnum, starfsteymi og félagi sem veit hvernig á að vinna hluti.“
„Ég hef ekki átt neinar viðræður og því sama svar og áður. Ég hef ekkert talað við félagið og kannski var það að bíða eftir að allt myndi róast. Ég hef ekki pælt mikið í þessu og neita að láta eitthvað trufla mig.“
„Ég býst samt fastlega við því að á einhverjum tímapunkti muni einhver segja mér eitthvað, annars mæti ég bara á næsta tímabili og held áfram að vinna mína vinnu,“ sagði Postecoglou.
Tottenham mætir Brighton á Tottenham-vellinum í lokaumferðinni á morgun, en liðið situr í 17. sæti.
Athugasemdir