
Tindastóll heimsótti Fram í 7. umferð Bestu deildar kvenna í kvöld. Eftir jafnan og rólegan leik skoraði Fram sigurmark á síðustu mínútu uppbótartímans. Donni var að vonum svekktur að leikslokum.
„Ansi sárt tap á móti Fram, það eru svona mín fyrstu viðbrögð. Þetta var bara jafn leikur og 0-0 hefðu bara verið sanngjörn úrslit, eðlileg úrslit út frá færum sem voru sköpuð og hvernig leikurinn spilaðist. Þannig bara glatað að stapa," sagði Donni.
Lestu um leikinn: Fram 1 - 0 Tindastóll
Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum í töflunni og bar leikurinn merki þess að bæði lið vildu ekki tapa stigi.
„Já bæði lið vildu bara vinna, alveg rétt hjá þér að þetta var mjög lokaður leikur og örugglega frekar bara leiðinlegur leikur á að horfa að mörgu leyti og spilaðist ekki sérlega skemmtilega. Ég held bara að 0-0 hefði verið sanngjörn úrslit þannig séð, við fengum dauðafæri í byrjun einn á móti markmanni og svo fá þær þetta eina færi í leiknum þannig 0-0 hefði bara verið sanngjarnt heilt yfir, en það var ekki þannig," sagði Donni.
Laufey Harpa fór meidd af velli á 21. mínútu leiksins eftir að hafa tognað á kálfa og Stólarnir voru líka án Elísu Bríetar sem var veik. „Það munar líka alveg um það í ekki stærri hóp en við erum með, því miður."
Nú tekur við tveggja vikna landsleikjahlé í deildinni. Donni segir það vera mjög gott að fá þetta hlé núna. „Við þurfum alveg á því að halda núna, aðeins að safna orku, við erum eiginlega búin að vera að spila þetta á sömu leikmönnunum svo sem allar mínútur nánast. Við höfum ekki stóran hóp og það er gott fyrir okkur að fá pínu pásu, þetta er búið að vera þétt spilað og við erum bara spennt að koma svo inn á móti Val og sýna það sem við höfum verið að sýna áður í sumar," sagði Donni að lokum.
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.