„Mér fannst við vera feykilega öflugir fyrir utan 10 mínútna kafla í fyrri hálfleik, þar sem að við fáum á okkur þrjú mörk og slökkvum á okkur varnarlega. Annars fannst mér þetta feykilega öflug frammistaða, þar sem við stjórnum leiknum alveg frá upphafi til enda," sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR eftir 2-3 tap á AVIS-vellinum í kvöld.
Mikið hefur verið rætt og ritað um varnarleik KR-inga en þeir hafa fengið á sig 18 mörk í átta leikjum í Bestu deildinni.
„Auðvitað er aldrei gaman að fá á sig mörk og sum markanna sem við höfum fengið á okkur eru bara hreint og beint aulaleg og þar sem við erum bara ekki nógu harðir, nógu grimmir."
Lestu um leikinn: KR 2 - 3 Fram
Finnur Tómas fékk að líta rauða spjaldið eða seinna gula, þegar lítið var eftir af leiknum eftir að hafa ýtt í Guðmund Magnússon.
„Hún er örugglega bara rétt. Hann hefur tuskað Gumma eitthvað til þarna, orðið pirraður á því hversu hægt leikurinn gekk og hversu mikið þeir fengu að draga tempóið úr leiknum," sagði Óskar aðspurður út í rauða spjaldið á Finn Tómas.
KR-ingar hafa lent í meiðslum en Í hóp KR vantaði varnarmennina Birgi Stein Styrmisson og Júlíus Mar Júlíusson.
„Það er langt í Birgi. Kemur örugglega í besta falli um miðjan júní . Júlíus, það er spurning hvort hann verði klár fyrir næsta leik. Ég efast um það en vonandi."
Viðtalið í heild sinni má nálgast í spilaranum að ofan.