Portúgalska markavélin Cristiano Ronaldo gæti spilað á HM félagsliða sem hefst í næsta mánuði en hann er í viðræðum við nokkur félög samkvæmt Gianni Infantino, forseta alþjóðafótboltasambandsins FIFA.
Ronaldo leitar alltaf allra leiða til að bæta við sig leikjum með það í huga að komast nær markmiði sínu, sem er að skora þúsund mörk á ferlinum.
Hann hefur spilað með sádi-arabíska félaginu Al Nassr síðustu ár en það gæti vel farið svo að hann verði lánaður í félag sem spilar á HM félagsliða í sumar.
Infantino, forseti FIFA, var gestur hjá samfélagsmiðlastjörnunni IShowSpeed á dögunum og greindi þar frá því að Ronaldo gæti spilað á mótinu.
„Já, Cristiano Ronaldo gæti mögulega spilað á HM félagsliða. Það eru viðræður við nokkur félög, þannig það er aldrei að vita, svona ef einhver hefur áhuga á því að ráða Ronaldo fyrir HM,“ sagði Infantino.
Ronaldo hefur verið orðaður við Wydad í Marokkó og mexíkóska félagið Monterrey. Al Hilal, Chelsea, Fluminense og Palmeiras hafa einnig verið nefnd, en Wydad og Monterrey eru talin leiða kapphlaupið um portúgalska sóknarmanninn.
Athugasemdir