Sölvi Geir Ottesen þjálfari Víkinga var ánægður með úrslit kvöldsins eftir 2-1 sigur á ÍA.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 1 ÍA
„Þetta var flottur leikur, ánægður fyrst og fremst með þrjú stig. Það var mikil harka í leiknum, hart barist. Mér fannst við vera með stjórnina á leiknum samt sem áður mest megnið af leiknum. Þeir sköpuðu svo sem ekki mikið. Við vorum klaufar að fá þetta mark á okkur, þá klikkum við bara í stöðu fyrir utan teiginn. Annars áttu þeir eitt stangaskot, við vorum ekki nógu þéttir þegar við vorum að fá skyndisóknir á okkur. Pressan var aðeins off í fyrri hálfleik sem við löguðum síðan í seinni hálfleiknum. Annars fannst mér við stjórna þessum leik, og áttum þennan sigur fyllilega skilið. Við hefðum klárlega getað skorað fleiri mörk líka," sagði Sölvi.
Víkingar fá klaufalegt mark á sig beint úr hornspyrnu sem þeir áttu. Þá nær Haukur Andri að sleppa í gegn þar sem það var enginn leikmaður Víkings tilbúinn að verjast eftir hornið.
„Við erum með þrjá fyrir utan og þeir eru í svona 'rest defense' (hvíldar varnarstöðu) sem eiga að verja skyndisóknina á okkur. Stundum gerist það að hann dettur fyrir utan og einn fer að skjóta. Þá þurfa hinir sem eru fyrir utan ekki að horfa á skotið heldur að koma sér fyrir aftan skotið. Því hann getur alltaf farið í mann, eins og við sáum bara í leiknum. Þannig við lærum bara af því, þetta er bara svona óhappalegt mark sem getur gerst."
Stígur Diljan Þórðarson kom til Víkings fyrir þetta tímabil en hann skoraði sitt fyrsta mark í meistaraflokks leik í kvöld.
„Hann er búinn að koma inn með rosalega miklum krafti. Hann fer út frá okkur 15 ára og fer til Benfica. Hann fær góðan skóla þar og kemur til baka dálítið eins og karlmaður. Hann er bara búinn að hrífa okkur Víkinga rosalega mikið. Hann hefði sennilega átt að vera búinn að skora fyrr í keppnisleik en það kom núna í dag, og við erum bara mjög ánægðir með það. Þetta er bara rosalega flottur leikmaður, alhliða leikmaður, getur haldið í boltann, getur tekið menn á. Hann er stór, getur unnið menn í skallaboltum, svo er hann líka bara með góðan leikskilning og gott auga fyrir spili. Hann er með bara allann pakkann, og ég gæti haldið áfram að hrósa honum."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.