Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram var að vonum sáttur með 3-2 sigur á sínum gömlu lærisveinum í KR á AVIS-vellinum í kvöld. Rúnar hefur sigrað KR í þremur af síðustu fjórum leikjum sínum sem þjálfari Fram.
„Ég elska ekkert að spila við KR, ekkert frekar en annað, en þetta er sérstakt fyrir mig og það er saga einhvers staðar þarna á bak við en í dag er ég auðvitað bara þjálfari Fram og í mínum huga snýst þetta um að vinna fótboltaleikina. Það fara allir Framarar glaðir heim í dag, af því að við fengum þrjú stig og skoruðum þrjú mörk og hefðum hæglega geta skorað 6, 7, 8 mörk," sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram.
Lestu um leikinn: KR 2 - 3 Fram
Jakob Byström spilaði sinn fyrsta deildarleik fyrir Fram í kvöld og þakkaði heldur betur traustið með tveimur frábærum mörkum. Rúnar var sáttur með frammistöðu hans.
„Við þurfum hraða eins og í þessum unga strák og hann hefur eins og maður segir 'potential' í að verða betri fótboltamaður. Hann hefur ofboðslega marga góða eiginleika en hefur litla reynslu af meistaraflokksfótbolta."
Mikið hefur verið rætt og ritað um leikstíl KR-inga og nálgun þeirra. Rúnar er fyrrum þjálfari KR og hreifst með þeim.
„Mér finnst frábært að horfa á KR og finnst frábært hvernig Óskar er að koma sterkur inn og breyta KR-liðinu í þetta skemmtilega fótboltalið sem það er. En á endanum held ég að það snúist um hjá KR að vinna titla og vera í toppbaráttu og ég fékk aldrei önnur skilaboð en að ég þurfti að vinna deildina, þegar ég var þarna."
Viðtalið í heild sinni má nálgast í spilaranum að ofan.