Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   þri 25. júní 2024 20:01
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deild kvenna: Blikar aftur á sigurbraut - Annar í röð hjá Þrótti
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Þróttur R.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tveimur fyrstu leikjum kvöldsins er lokið í Bestu deild kvenna, þar sem topplið Breiðabliks er komið aftur á sigurbraut.

Lestu um leikinn: Keflavík 0 -  2 Breiðablik

Blikar heimsóttu Keflavík og skoraði Katrín Ásbjörnsdóttir bæði mörkin í þægilegum sigri.

Katrín skoraði fyrsta markið eftir góða fyrirgjöf frá Birtu Georgsdóttur strax á fjórðu mínútu leiksins og komust Blikar nálægt því að tvöfalda forystuna áður en hún skoraði annað markið eftir hornspyrnu.

Keflvíkingar unnu sig inn í leikinn er tók að líða á hann og komust í álitlegar stöður en þeim tókst þó ekki að minnka muninn. Keflavík var sterkara liðið í síðari hálfleik en fékk lítið af opnum færum og urðu lokatölur 0-2.

Breiðablik er með 27 stig eftir 10 umferðir, þremur stigum fyrir ofan Val sem er þó að eiga magnaða endurkomu gegn Þór/KA á Akureyri þessa stundina.

Keflavík er í næstneðsta sæti deildarinnar, með 6 stig.

Keflavík 0 - 2 Breiðablik
0-1 Katrín Ásbjörnsdóttir ('4)
0-2 Katrín Ásbjörnsdóttir ('28)

Þróttur R. vann þá annan leikinn sinn í röð þegar botnlið Fylkis kíkti í heimsókn.

Lestu um leikinn: Þróttur R. 1 - 0 Fylkir

Sigríður Theódóra Guðmundsdóttir skoraði strax á þriðju mínútu með góðu skoti eftir undirbúning frá Leah Pais og Ísabellu Önnu Húbertsdóttur.

Þróttarar voru talsvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en tókst ekki að skora annað mark fyrir leikhlé. Heimakonur fengu nokkur góð færi og áttu eitt sláarskot en staðan var áfram 1-0.

Fylkir fékk loks færi í upphafi síðari hálfleiks en Þróttarar tóku yfir stjórn á leiknum í kjölfarið. Þeim tókst þó ekki að tvöfalda forystuna en Fylkir jafnaði heldur ekki leikinn og urðu lokatölur 1-0 fyrir Þrótti.

Þróttur er því með 10 stig eftir 10 umferðir en Fylkir situr á botni deildarinnar með 5 stig.

Þróttur R. 1 - 0 Fylkir
1-0 Sigríður Theódóra Guðmundsdóttir ('3)
Athugasemdir
banner
banner