Real vill Trent - Man Utd mun ekki reyna við Southgate - Aston Villa býr sig undir að keppa um Williams
   þri 25. júní 2024 12:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Rak vallarstjórann fyrstu vikuna og kokkinn eftir tíu daga
Algjört kaos í Kortrijk en kraftaverkið náðist
Freyr Alexandersson, þjálfari Kortrijk.
Freyr Alexandersson, þjálfari Kortrijk.
Mynd: Getty Images
Kortrijk náði að halda sér uppi með ótrúlegum hætti.
Kortrijk náði að halda sér uppi með ótrúlegum hætti.
Mynd: Kortijk
Freyr tók við Kortrijk um síðustu áramót.
Freyr tók við Kortrijk um síðustu áramót.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ef ég hefði vitað það sem ég veit í dag, þá hefði ég ekki tekið þetta að mér," sagði Freyr Alexandersson, þjálfari Kortrijk, í útvarpsþættinum Fótbolti.net síðasta laugardag.

Freyr vann kraftaverk með Kortrijk en hann tók við liðinu í afar erfiðri stöðu um síðustu áramót. Undir hans stjórn náði liðið að halda sér í belgísku úrvalsdeildinni með ótrúlegum hætti.

Þegar Freyr tók við liðinu þá var mikið rugl í gangi innan sem utan vallar en hann náði að bjarga því sem hægt var í brunarústunum. Núna mun hann reyna að byggja nýjan grunn fyrir þetta áhugaverða fótboltafélag.

„Þeir voru sem sagt ekki að fela neitt. En það voru einhver horn - þar sem var líka drulla og skítur - sem þeir voru ekki einu sinni búnir að átta sig á. Þú spyrð hvernig stemningin var, hún var mjög lág. Það var engin samheldni í liðinu og starfsmenn voru ráðvilltir. Það var algjört kaos og það er svo langur aðdragandi að því. Félagið fór í tvö söluferli og það er löng saga sem er leiðinlegt að fara í gegnum. Það er ástæða fyrir því að félagið var þar sem það var," sagði Freyr.

„Hópurinn var illa samsettur og starfsliðið var óreynt. Það var ekki góð harmonía þar. Á fyrstu vikunni minni rek ég vallarstjórann og eftir tíu daga rek ég kokkinn. Ég þurfti að fara þangað. Ég þurfti að taka til alls staðar. Sem betur fer var ég með aðstoðarmann minn, Jonathan Hartmann, með því við höfum ákveðna hugmyndafræði og verkferla sem við vinnum eftir. Á þessu stigi sagði ég við hann: 'Þú tekur þetta og ég tek til'. Það voru alls konar hlutir líka sem komu upp á leiðinni sem voru miklu erfiðari að díla við en ég gerði mér grein fyrir."

Freyr segist hafa lært mikið á verkefninu og kveðst mikið betri þjálfari fyrir vikið.

„Ég var alveg kominn á brúnina, að meika þetta, þegar við vorum komnir hálfa leið út í ána. Þetta var mjög erfitt."

Freyr sagði frá því í þættinum að félagið hafi rætt við hann um nýjan samning en hann sé með kröfur um bætingu á ýmsum hlutum innan félagsins áður en það gerist. Hann segir að það hafi gengið vel hingað til í sumar að bæta ýmislegt innan félagsins en allt viðtalið má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan. Mjög svo áhugavert.
Útvarpsþátturinn - Freysi og kraftaverkið í Kortrijk
Athugasemdir
banner
banner
banner