Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, ritar pistil á heimasíðu félagsins sem birtist í dag. Í pistlinum segir hann árangur KR vera arfaslakan en er handviss um að liðið muni vinna sig upp úr þeirri djúpu holu sem það er í.
Hann segir að stuðningur sinn við Rúnar Kristinsson og hans aðstoðarmenn og liðið í heild sé heill og hvetur stuðningsmenn liðsins til að standa við bakið á liðinu.
KR er í sjöunda sæti Bestu deildarinnar og langt er liðið síðan liðið vann deildarleik. Í kvöld kemur Valur í heimsókn.
Pistilinn má sjá í heild hér að neðan:
Hann segir að stuðningur sinn við Rúnar Kristinsson og hans aðstoðarmenn og liðið í heild sé heill og hvetur stuðningsmenn liðsins til að standa við bakið á liðinu.
KR er í sjöunda sæti Bestu deildarinnar og langt er liðið síðan liðið vann deildarleik. Í kvöld kemur Valur í heimsókn.
Pistilinn má sjá í heild hér að neðan:
Hvatningarorð frá formanni Knattspyrnudeildar KR!
Ágætu félagar í KR
Árangur KR liðsins það sem af er sumri er arfaslakur. Árangurinn er langt undir þeim væntingum sem við gerum til liðsins og ekki í samræmi við kröfur okkar KR-inga.
Hvað veldur og hvað er til ráða? Hlutina þarf að skoða í stærra samhengi en tímabundinn árangur á velli. Staðan í deildinni er ákveðinn mælikvarði á stöðuna eins og hún er í dag. Við megum þó ekki gleyma því að saga KR spannar 123 ár. Það skiptast á skin og skúrir. Tímabilið 2019 setti KR liðið stigamet undir stjórn núverandi þjálfarateymis. Í dag erum við í djúpri holu. Holu sem við vinnum okkur upp úr og aftur á ný mun félagið okkar blómstra.
Velgengni þarf að vinna fyrir. Hún er ekki sjálfsprottin eða sjálfsögð. Það þarf að kunna að tapa og bregðast við mótlæti. Það verður ekki gert með fýlusvip eða gífuryrðum. Það verður ekki gert með því að sitja heima í barlómi og bölvi. Spretta svo fram úr sófanum þegar vel gengur. Í gegnum súrt og sætt stöndum við saman.
Ég tala fyrir sjálfan mig þegar ég segi að stuðningur minn við þjálfarateymið og liðið er heill. Stuðningur minn einskorðast ekki við einstaka leikmenn. Stuðningur minn er skilyrðislaus stuðningur við félagið okkar KR. Ég hef mínar skoðanir á liðinu og hvernig það skuli skipað en ég mæti á völlinn sama hvað. Ég er hundfúll með árangur liðsins en ég mæti samt. Því ég veit að KR kemur til baka. Ég ætla mér að eiga þátt í þeirri endurkomu.
KR er alltaf í fremstu röð. Það höfum við umfram öll önnur félög á Íslandi. Þau félög er nú skipa efstu sæti íslenska knattspyrnu eru vel að því komin. En gleymum því ekkki að samanlagður fjöldi titla þeirra nær ekki þeim fjölda titla sem KR hefur unnið á þessari öld. Hann nær ekki einu sinni þeim fjölda titla sem KR hefur unnið undir stjórn núverandi þjálfara. Gleymum því ekki.
En við verðum að líta í eigin barm. Við getum betur og verðum að gera betur. KR stendur á tímamótum. Síðar á þessu ári hefst mesta uppbygging í sögu félagsins. Við hefjum framkvæmdir á glæsilegri æfinga- og keppnisaðstöðu sem mun eiga sér enga líka hér á landi. Félagsaðstaða sem mun gjörbreyta allri umgjörð félagsins. Þessar breytingar munu nýtast öllum okkar iðkendum og nærsamfélagi. Þá mun það hafa veruleg jákvæða áhrif á rekstrarumhverfi félagsins og styrkja samkeppnisstöðu.
Á sama tíma verðum við að huga að tímabundnum árangri félagsins. Við megum ekki gleyma okkur í framtíðinni því mælikvarði félagsins í dag er hinn tímabundni árangur og staða liðsins í töflunni. Hvað getum við gert í því? Það sem hinn almenni KR-ingur getur gert er að mæta á völlinn og styðja liðið. Rétt eins og við gerum kröfur á liðið okkar og þjálfara hljótum við að gera meiri kröfur til okkar sjálfra. Við, líkt og þjálfarar og leikmenn, getum gert miklu betur. Byrjum núna í kvöld þegar við tökum á móti Val á heimavelli okkar við Meistaravelli. Stöndum undir nafni, fylkjum liði, náum í vini okkar og nágranna, náum í KR-inginn í næsta húsi. Sýnum enn á ný hverjir eru bestir á Íslandi. Alltaf.
Allir sem einn.
Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeilda
Athugasemdir