„Ég held að menn horfi svolítið blint í það þegar okkur er spáð falli. Menn sjá nöfnin sem hafa farið úr leikmannahópnum, nöfn sem flestir þekkja og svo koma leikmenn inní staðinn sem eru ekki þekktir hér heima. Ég hef svo sem enga skoðun á því að okkur sé spáð falli," segir Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, í samtali við Fótbolta.net. Vestra er spáð ellefta sæti deildarinnar.
„Okkur hefur gengið ágætlega í vetur. Hópurinn er samheldinn og við höfum sýnt á köflum góða spilamennsku. Við tókum okkur smá tíma að fylla í eyðurnar með hvaða leikmenn og hvernig leikmenn við þyrftum að fá til að bæta liðið. Ég er á því að okkur hafi tekist vel til með það miðað við hvaða breytur við höfðum í leikmannamálum."
„Ég tel hópinn í meira jafnvægi en á sama tíma í fyrra og eins tel ég liðið í betra standi líkamlega."
Hvernig líst þér á að fara inn í annað tímabilið í röð í efstu deild?
„Ég tek því bara fagnandi og hópurinn líka. Strákarnir áttu skilið að halda sér í deildinni. Það var allt lagt í þetta og það var aldrei spurning um neitt annað en að okkur tækist þetta. Það var allavega tilfiningin hjá okkur sem tengdust liðinu og eins leikmönnum."
„Ég held svo að hinn almenni „leikmaður” átti sig ekki alveg á því hversu gríðarlega stórt afrek það var hjá liðinu að halda sér uppi í fyrra. Við lentum í gríðarlega miklum áföllum með meiðsli lykilmanna í Eiði Aroni, Fatai, Gustav Kjeldsen, Morten Hansen og svo auðvitað Andra Rúnari sem var í miklu brasi langt fram eftir móti. Allir þessir leikmenn, að Andra undanskyldum, eru með frá byrjun, allavega eins og staðan er núna."
„Eins er heimavöllurinn klár og aðstæður fyrir Vestra hafa lagast mikið. Það er mikill uppgangur hjá félaginu í vallarhúsinu og við höfum tekið inn núna fjórða starfsmanninn í fullt starf í liðið. Ég fagna komu Vignis Snæs og Ferran sjúkra- og styrktarþjálfara og svo er Vladan þarna líka auðvitað. Ég hef í kringum mig gríðarlega sterkt teymi sem er gott. Í raun eru engar afsakanir fyrir komandi sumri."
Það hafa orðið nokkrar breytingar á leikmannahópnum í vetur en Davíð er ánægður með þá leikmenn sem hafa komið inn.
„Ég er ánægður með þann liðstyrk sem við höfum fengið, allt eru þetta leikmenn sem vildu koma til Vestra og eins eru allir leikmenn sem við höfum fengið núna með mikinn hvata í að ná lengra, taka næsta skref og það skiptir okkur gríðarlega miklu máli. Við erum að horfa í það að fá inn mögulega einn til tvo leikmenn til viðbótar en það verður ekki gert nema það séu réttu leikmennirnir; leikmenn sem hjálpa Vestra."
„Ég hef mikla trú á þessum hóp og þessu liði sem við höfum þrátt fyrir að spáin hjá ykkur geri það ekki. Svo er það þeirra að sanna úr hverju þeir eru gerðir því þessi deild er ekki auðveld eins og flestir vita en markmiðin eru skýr: Gera betur en í fyrra, gamla tuggan."
Að lokum, einhver skilaboð til stuðningsmanna?
„Skilaboð til stuðningsmanna er bara þakklæti, þakklæti fyrir frábæra mætingu á flesta leiki Vestra. Hún kom á óvart, mætingin á okkar útileiki í fyrra og nú í vetur. Við virkilega þurfum á okkar stuðningsmönnum að halda og jafnvel meira en önnur lið. Við þurfum að bæta aðeins mætinguna á okkar heimaleiki því þegar mætingin er góð, þá er stemningin stórkostleg og liðið tapar ekki þannig leikjum fyrir vestan," sagði Davíð Smári að lokum.
Athugasemdir