Það hafa jákvæðar fréttir verið að berast úr herbúðum Arsenal og Real Madrid sem mætast í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
Lykilmenn eru að koma til baka úr meiðslum þar sem Arsenal er að fá sína skærustu stjörnu aftur eftir erfiða þriggja mánaða fjarveru. Á þessum tíma tapaði Arsenal fjórum sinnum og gerði fimm sinnum jafntefli í nítján leikjum, sem er ekki nægilega góður árangur þar á bæ.
Saka verður klár í slaginn fyrir báða leikina gegn Real Madrid enda var hann ekki að glíma við alvarleg meiðsli.
Í herbúðum Real Madrid er Eder Militao kominn aftur til æfinga eftir fjögurra mánaða fjarveru. Militao mun þó ekki spila gegn Arsenal þar sem hann er að ná sér aftur eftir krossbandsslit.
Þetta er í annað sinn á tveimur árum sem Militao slítur krossband, en hann er heppinn að það gerðist á mismunandi hné.
Militao var fjarverandi í sjö mánuði eftir fyrra krossbandsslitið en þjálfarateymi Real Madrid er að vonast til að hann geti verið klár í slaginn aftur fyrir lok deildartímabilsins.
Hann meiddist í fyrri hluta nóvember og þyrfti því að ná fullum bata á fimm til sex mánuðum til að ná að klára tímabilið með Real.
Madrídingar búast þó fyllilega við því að Militao verði klár í slaginn fyrir HM félagsliða í sumar.
Arsenal tekur á móti Real Madrid 8. apríl og fer seinni leikurinn fram á Santiago Bernabéu 16. apríl.
Athugasemdir