Onana orðaður við Sádí-Arabíu - Wharton til Liverpool - Barcelona búið að finna eftirmann Lewandowski
   sun 27. apríl 2025 19:12
Brynjar Ingi Erluson
Besta deild kvenna: Valur á toppinn - Ótrúleg endurkoma í fyrsta sigri Stjörnunnar
Kvenaboltinn
Fanndís Friðriks kom að öllum mörkum Vals
Fanndís Friðriks kom að öllum mörkum Vals
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Fyrsti sigur Stjörnunnar er kominn í hús
Fyrsti sigur Stjörnunnar er kominn í hús
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valskonur eru komnar á toppinn í Bestu deildinni eftir að hafa unnið öruggan 3-0 sigur á Þór/KA á Hlíðarenda í dag. Stjarnan vann fyrsta sigur sinn á tímabilinu eftir ótrúlega endurkomu á Sauðárkróksvelli.

Valskonur unnu 3-0 sigur á Þór/KA á Hlíðarenda en öll mörkin komu á síðasta hálftímanum.

Færin voru ekki mörg í fyrri hálfleiknum en það voru Valskonur sem áttu besta færið er Fanndís Friðriksdóttir kom boltanum inn á teiginn á Ragnheiði Þórunni Jónsdóttur sem setti hann beint á Jessicu Grace Berlin í markinu.

Valur kom öflugt inn í síðari hálfleikinn og fékk vítaspyrnu þegar hálftími var eftir. Varnarmaður Þórs/KA handlék boltann í eigin teig eftir fyrirgjöf frá Fanndísi.

Jordyn Rhodes tók vítaspyrnuna og skoraði. Aftur var Fanndís arkitektinn er Valur tvöfaldaði forystuna.

Hún hljóp upp að endamörkum, kom boltanum fyrir sem fór af Kolfinnu Eik Elínardóttur sem stýrði honum í eigið net. Fanndís kórónaði síðan frammistöðu sína með hörkuskoti á hægri vængnum og alveg út við nærstöng.

Frábær 3-0 sigur hjá Val staðreynd og liðið komið á toppinn með 7 stig en Þór/KA með 6 stig í öðru sæti.

Mögnuð endurkoma Stjörnunnar

Stjörnukonur unnu fyrsta leik sinn á tímabilin og það með stæl er þær lögðu Tindastól að velli, 2-1, eftir frábæra endurkomu á lokamínútunum.

Stólarnir fóru með eins marks forystu inn í hálfleikinn þökk sé marki Makala Woods á 42. mínútu, en Stjarnan hafði legið aðeins á heimakonur fram að markinu.

Í síðari hálfleiknum náði Tindastóll að skapa sér nokkur ágætis færi á meðan Stjarnan hélt ágætlega í boltann en náði ekki að skapa sér neitt af viti.

Þegar lítið var eftir af leiknum tókst gestunum að snúa leiknum sér í hag. Jana Sól Valdimarsdóttir fékk boltann inn fyrir og kláraði vel.

Stjarnan nýtti sér þennan meðbyr og gerði sigurmarkið aðeins örfáum mínútum síðar.

Gyða Kristín Gunnarsdóttir kom boltanum fyrir á Örnu Dís Arnþórsdóttur sem náði að pota honum áfram á Jessicu Ayers sem skoraði.

Varnarleikur Tindastóls algerlega í molum síðustu mínútur leiksins og fagnaði Stjarnan dýrmætum fyrsta sigri sínum. Stjarnan er nú með 3 stig eins og Tindastóll þegar þrjár umferðir hafa verið leiknar.

Valur 3 - 0 Þór/KA
1-0 Jordyn Rhodes ('61 , víti)
2-0 Kolfinna Eik Elínardóttir ('70 , sjálfsmark)
3-0 Fanndís Friðriksdóttir ('87 )
Lestu um leikinn

Tindastóll 1 - 2 Stjarnan
1-0 Makala Woods ('42 )
1-1 Jana Sól Valdimarsdóttir ('88 )
1-2 Jessica Ayers ('94 )
Lestu um leikinn
Besta-deild kvenna
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Valur 3 2 1 0 5 - 0 +5 7
2.    FH 3 2 1 0 5 - 1 +4 7
3.    Þór/KA 3 2 0 1 6 - 5 +1 6
4.    Breiðablik 2 1 1 0 8 - 3 +5 4
5.    Þróttur R. 2 1 1 0 5 - 3 +2 4
6.    Víkingur R. 2 1 0 1 7 - 6 +1 3
7.    Tindastóll 3 1 0 2 3 - 4 -1 3
8.    Stjarnan 3 1 0 2 5 - 13 -8 3
9.    Fram 2 0 0 2 1 - 5 -4 0
10.    FHL 3 0 0 3 1 - 6 -5 0
Athugasemdir
banner
banner