
„Við vorum allt í lagi þegar við spiluðum okkar leik en við gerðum þetta of auðvelt fyrir þær. Við gerðum mistök og við þurfum að bæta fyrir þau hratt vegna þess að við mætum gríðarsterku Valsliði í næsta leik," sagði John Andrews, þjálfari Víkings, eftir 4-1 tap gegn Tindastól í Bestu deild kvenna í dag.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 1 - 4 Tindastóll
Víkingar hélt vel í boltann en í hvert skipti sem Tindastóll fékk boltann skapaðist hætta.
„Við þurfum að vera einbeittari og við þurfum að vera grimmari á seinasta þriðjungs vallarins. Tindastóll gerði þetta einfalt og spilaði löngum boltum og skapaði hættu. Við viljum spila öðruvísi og kannski er það að skaða okkur."
Víkingar sitja nú í fallsæti eftir sex leiki með aðeins þrjú stig, ansi dræm uppskera.
„Við áttum von á því að vera með tíu til tólf stig á þessum tímapunkti enda erum við með þannig leikmannahóp. Hlutirnir eru ekki að falla með okkur og við þurfum að breyta því og við munum gera það."
John hefur þó ekki áhyggjur af því að andrúmsloftið meðal sinna stelpna sé farið að súrna þrátt fyrir laka byrjun.
„Við erum jákvæð þrátt fyrir að spurningarnar þínar séu ekki mjög jákvæðar. Við munum æfa á morgun og verðum tilbúin fyrir leikinn gegn Val."
Athugasemdir