
Pétur Rögnvaldsson, þjálfari HK, taldi úrslit leiksins í 5-4 tapi HK gegn KR sanngjörn en hann vill fá að sjá meira frá sínum leikmönnum.
„Þetta er leiðinlegt, við urðum undir í dag víða um völl. Kannski einna helst í baráttunni og það voru klaufaleg mörk á báða boga. 5-4 er skemmtilegra en 1-0 en við getum ekki kvartað yfir loka niðurstöðunni, eftir það hversu soft við vorum og mikið undir í baráttunni,“ sagði Pétur í viðtali við Fotbolti.net eftir leik.
Frammistaða HK-inga var þó ekki alslæm í dag en það var eitthvað um góða kafla inn á milli. HK var yfir í stöðunni 0-1 og svo aftur í stöðunni 2-3.
„Það er gott að skora fjögur mörk. Mér fannst koma móment þegar við þorðum að halda í boltann, þá var ýmislegt gott. Heilt yfir er maður meira hugsi yfir því að fá á sig fimm mörk í þessum leik. Við verðum kannski neikvæð í dag en svo snúum við því við á morgun því það er stutt í næsta leik, Afturelding á fimmtudaginn,“ sagði Pétur Rögnvaldsson, þjálfari HK. Viðtalið við hann í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.