

Snorri Þór Stefánsson er markvörður fæddur 2005, en hann spilaði sinn fyrsta leik í Lengjudeildinni í kvöld fyrir liðið sitt Fjölni þegar þeir gerðu 1-1 jafntefli við Fylki.
Lestu um leikinn: Fjölnir 1 - 1 Fylkir
„Þetta var bara gríðarlega erfiður leikur. Það var ekki mikið að gera hjá mér í þessum leik. Mér fannst það sterkt hjá okkur að komast í 1-0 og mér fannst við alveg getað bætt við forystuna, en þetta var helvíti erfitt þarna í lokin þegar þeir ná markinu inn og við erum bara í nauðvörn. En bara sterkt að ná að halda þetta út finnst mér."
Snorri byrjaði tímabilið sem þriðja val í markmannsstöðunni hjá Fjölni, en eftir meiðsli hjá báðum hinum markvörðunum spilaði hann sinn fyrsta leik í Lengjudeildinni í kvöld.
„Þetta er náttúrulega bara geggjað, maður vill bara spila eins marga leiki og maður getur. Auðvitað er smá stress, þegar þú ert ekki í leikformi og ert ekki búinn að spila. Samt þegar þú ert búinn með upphitun og kominn inn á völlinn þá er þetta aldrei neitt auðruvísi. Þetta er bara geggjað lið sem ég hef fyrir framan mig," sagði Snorri en hann greindi svo frekar frá því hvernig var að koma inn sem þriðji markvörður Fjölnis á tímabilinu.
„Það segir sig sjálft, að það er ekkert algengt og ég man ekki eftir því að það hafi gerst nokkurtíman að tveir markmenn af þrem hafa meiðst. Ég hafði reyndar ekki gert þau greinaskil að ég væri þriðji markmaður, og ég skrifaði ekki undir hjá Fjölni sem þriðji markmaður. Maður er bara í geggjaðri samkeppni við Sigurjón og Hauk sem eru bara geggjaðir markmenn og maður verður bara að taka á kassann allt sem geris. Eins með þennan leik, þegar maður fær kallið þá verður maður bara að reyna að standa sig og nýta tækifærið."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.