
„Einfaldasta skýringin er fjögur mörk gegn einu og því fór sem fór..“ Sagði Guðni Eiríksson þjálfari FH um hvort hann hefði einhverja skýringu á 4-1 tapi FH gegn liði Þróttar í sannkölluðum toppslag liðanna í Bestu deild kvenna í gær.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 4 - 1 FH
Það bjó þó meira að baki og Guðni svaraði því til hvers vegna leikurinn fór jafn illa fyrir lið FH og raun bar vitni.
„Við fáum á okkur tvö mörk snemma leiks og lendum í raun 2-0 undir þegar við förum að hefja leikinn. Alls ekki gott og við þurfum að skoða hvað gekk á þar, Við komum svo sterkt inn í leikinn í stöðunni 2-0 og fannst við taka yfir leikinn þá. Skoruðum gott mark og komum okkur í 2-1 og áttum þá að herja enn frekar á lið Þróttar og koma inn jöfnunarmarki. Í staðinn skora þær 3-1 eitthvað trúðamark en öll mörkin voru eiginlega einhver trúðamörk. “
Undir lok fyrri hálfleiks varð FH fyrir áfalli þegar fyrirliði liðsins Arna Eiríksdóttir þurfti að yfirgefa völlinn vegna meiðsla. Arna virtist mjög þjáð þegar hún yfirgaf völlinn og gat ekki beitt fætinum fyrir sig og þurfti að styðja hana af velli. Vissi Guðni stöðuna á henni?
„Ég veit ekki hver staðan á henni er, þetta eru hnémeiðsli. Það virðist vera einhver bölvun á varnarlínu FH liðsins í sumar. Þetta er þriðji leikmaðurinn sem er að fara í hnémeiðsli og það er erfitt að við þurfum alltaf að vera eiga við svoleiðis óhöpp. Mjög slæmt ef við erum að fara missa hana í langan tíma því hún hefur svo sannarlega bundið saman vörn FH liðsins það sem af er sumri.“
Sagði Guðni en allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir