
„Það er góð tilfinning að vinna og hún venst vel," sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þór/KA, eftir sigur liðsins gegn Fram í Bestu deild kvenna í dag.
Lestu um leikinn: Fram 1 - 3 Þór/KA
Þór/KA náði tveggja marka forystu en liðið fékk á sig mark á lokasekúndum fyrri hálfleiksins.
„Ég var mögulega aðeins of pirraður og fór drullusvekktur inn í hálfleik því að búa til vonarglætu fyrir andstæðinginn var ótrúlegur óþarfi hjá okkur. Þess vegna var ég mjög ósáttur að hafa ekki klárað fyrri hálfleikinn betur með því að vera þrjú til fjögur núll yfir," sagði Jóhann Kristinn.
Henríetta Ágústsdóttir þurfti að fara af velli strax í upphafi seinni hálfleiks en það var brotið illa á henni í fyrri hálfleiknum.
„Það er ekki góð staða á henni. Pirringsbrot sem er algjör óþarfi. Mér finnst þetta lélegt, það á að taka á þessu. Það á að vernda leikmenn, við fáum tvisvar svona óþarfa rugl og erum stálheppin að fara ekki enn verr út úr þessu. Þetta lítur ekki vel út fyrir hana en við vonum það besta og búumst við því versta," sagði Jóhann Kristinn.
Athugasemdir