Onana orðaður við Sádí-Arabíu - Wharton til Liverpool - Barcelona búið að finna eftirmann Lewandowski
   sun 27. apríl 2025 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Flick hefur aldrei tapað úrslitaleik sem aðalþjálfari
Mynd: EPA
Þýski þjálfarinn Hansi Flick hefur verið að gera stórkostlega hluti við stjórnvölinn hjá Barcelona frá því að hann tók við taumunum fyrir einu ári síðan.

Flick stýrði Börsungum til sigurs gegn erkifjendunum í liði Real Madrid í úrslitaleik spænska konungsbikarsins í gærkvöldi, þar sem lærisveinar hans sigruðu 3-2 eftir afar skemmtilegan slag sem fór alla leið í framlengingu. Til gamans má geta að Barca og Real hafa mæst þrisvar sinnum á tímabilinu hingað til og alltaf hefur Börsungum tekist að bera sigur úr býtum.

Þetta er annar bikarinn sem Flick sigrar á sínu fyrsta tímabili hjá Barca eftir að hafa einnig sigrað spænska Ofurbikarinn. Hann vonast til að fullkomna titlaþrennu eða jafnvel fernu þar sem Börsungar leiða í spænsku titilbaráttunni auk þess að eiga leiki við Inter í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

Það vekur athygli að Flick hefur ekki enn tapað úrslitaleik á ferli sínum sem þjálfari. Hann hefur unnið alla sjö úrslitaleiki sína hingað til, hinir fimm sigrarnir komu við stjórnvölinn hjá Bayern þegar liðið vann allt mögulegt og nú hefur honum tekist að landa tveimur bikartitlum til viðbótar.

Á dagatalsárinu 2020 unnu Bæjarar þýsku deildina, auk þess að sigra úrslitaleiki Meistaradeildarinnar, þýska bikarsins, evrópska Ofurbikarsins, þýska Ofurbikarsins og HM félagsliða. Flick var þó aðstoðarþjálfari þýska landsliðsins sem tapaði úrslitaleik Evrópumótsins 2008.

„Ég er stoltur af liðinu og félaginu. Allir hjá Barcelona gera sitt besta og leggja sitt af mörkum til að hlutirnir gangi smurt fyrir sig. Þessi sigur í bikarnum fyllir mig af stolti," sagði Flick meðal annars eftir úrslitaleikinn.

„Á hverjum degi er ég mjög ánægður og þakklátur fyrir að starfa hér með svona stórkostlegum leikmannahópi."
Athugasemdir
banner