Eftir að hafa horft á íslenska liðið í eltingarleik við Danmörku í tuttugu mínútur hafði ég áhyggjur af framhaldinu. Það sem sást var ekki fallegt. Liðið sat djúpt, mjög djúpt, og ég sá ekki hvernig við ættum að geta truflað Danina í sínum leik, náðum ekki að klukka þá og snertum varla boltann, sérstaklega fyrstu tíu mínúturnar.
Tyrkneski dómarinn hjálpaði okkur lítið því þegar við miðuðum á Svein Aron með löngu sendingum okkar þá fékk Sveinn óblíðar móttökur og dómarinn kaus að láta þau návígi eiga sig.
Tyrkneski dómarinn hjálpaði okkur lítið því þegar við miðuðum á Svein Aron með löngu sendingum okkar þá fékk Sveinn óblíðar móttökur og dómarinn kaus að láta þau návígi eiga sig.
Mín upplifun af fyrra markinu var sú að Danirnir skiptu skyndilega um gir, íslenska liðið lenti á eftir í einni færslu sem opnaði á frábært tækifæri fyrir Danina sem þeir nýttu sér úti hægra megin.
Seinna markið kom eftir einhvern misskilning hver ætti að vernda hvaða svæði og algjöra ólukku hvernig boltinn féll beint fyrir Danina og tóku þeir tækifærið og nýttu af fagmennsku.
Eftir mörkin var þetta allt annað áhorfs, einhvern veginn eins og íslensku strákarnir þorðu að koma út úr skelinni og byrjuðum að ógna. Fengum vítaspyrnu eftir gott langt innkast frá Stefáni Teiti en því miður brást Sveini bogalistin af vítapunktinum, vítið lélegt.
Íslenska liðið náði að skapa sér fínar stöður upp úr hröðum gagnsóknum í seinni hálfleik og Danirnir tóku á sig nokkur gul spjöld til að stöðva þá Jón Dag og Mikael. Dómarinn fór að flauta á hluti sem hann lét vera í fyrri hálfleiknum og virkaði eins og það væri önnur lína í dómgæslunni, skrítið en hentaði okkur svo sem ágætlega í seinni hálfleiknum. Við fengum algjört dauðafæri upp úr frábærri sókn en Danirnir náðu að komast fyrir skot Stefáns.
Skiptingin um miðbik seinni hálfleiks var vel heppnuð. Þeir Andri Fannar og Ísak Bergmann komu inn fyrir þá Willlum Þór og Alex Þór sem virkuðu lúnir. Skipting sem hefði sennilega mátt koma fyrr en auðvelt að vera vitur eftir á þegar þú sérð hversu vel skiptingin heppnast.
Því miður kom ekki mark frá íslenska liðinu því það hefði alltaf komið Dönum úr jafnvægi. Mjög margt jákvætt síðustu sjötíu mínúturnar en byrjun leiksins var ekki sannfærandi.
Leikur Rússlands og Frakklands hefst eftir tæpan klukkutíma og þurfa Frakkar að vinna leikinn til að íslenska liðið sé ekki úr leik í mótinu.
Lokaleikurinn er gegn Frakklandi á miðvikudag.
Athugasemdir