Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   þri 14. maí 2024 14:24
Elvar Geir Magnússon
Sonur Heimis með háleita drauma - Langar að þjálfa með pabba og koma Íslandi á HM
Ráðinn yfirþjálfari barna- og unglingastarfs Vals
Hallgrímur og Heimir á Laugardalsvelli.
Hallgrímur og Heimir á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hallgrímur er aðstoðarmaður Péturs Péturssonar hjá meistaraflokki kvenna.
Hallgrímur er aðstoðarmaður Péturs Péturssonar hjá meistaraflokki kvenna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hallgrímur á landsleik.
Hallgrímur á landsleik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Valur
Valur hefur ráðið Vestmannaeyinginn Hallgrím Heimisson sem yfirþjálfara barna- og unglingastarfs félagsins. Hallgrímur er efnilegur þjálfari en faðir hans er Heimir Hallgrímsson, ástsælasti þjálfari Íslandssögunnar.

Hallgrímur er 28 ára og hefur þjálfað yngri flokka hjá Val auk þess sem hann er aðstoðarmaður Péturs Péturssonar hjá meistaraflokki kvenna hjá félaginu.

Í viðtali við miðla Vals segist Hallgrímur setja miklar kröfur á sjálfan sig og vera með háleita drauma í þjálfarastarfinu.

„Ég er náttúrulega með alveg kex-bilaða drauma þegar kemur að þessu. Mig langar að verða næstur til að koma íslenska landsliðinu á HM karlamegin, eða vera sá fyrsti sem gerir það kvennamegin. Ég set stefnuna á að ná alla leið í þjálfun og er tilbúinn að fórna ansi miklu til að ná því í framtíðinni," segir Hallgrímur.

„Svo væri líka gaman að þjálfa með pabba áður en hann hættir. Hvenær sem það verður. Ég er hins vegar mjög meðvitaður um það að ég á ótrúlega mikið eftir ólært og er alls ekkert að flýta mér að neinu."

„Ég er á frábærum stað í dag og er í ótrúlega spennandi verkefnum hjá Val. Bæði með Pétri og Öddu hjá stelpunum þar sem við erum með mjög háleit markmið, og núna sem yfirþjálfari yngri flokka Vals þar sem mikil vinna er fra undan."

Úr tilkynningu Vals:
Hallgrímur segir þetta vera hárrétt skref fyrir sig enda sé einn af kostum þess að vera í Val öll sú þekking sem félagið býr yfir.

„Stjórn félagsins er ótrúlega metnaðarfull og líklega sú besta á landinu og svo er fólkið hér á skrifstofunni frábært og það er mikil fjölskyldustemmning milli deilda þar sem allir virðast tilbúnir að hjálpast að," segir Hallgrímur.

„Fyrir ungan þjálfara eins og mig sem langar að ná langt í því sem ég geri þá horfi ég mikið í þetta. Ég hef lært ótrúlega mikið af Pétri Péturs og mun halda því áfram. Það er einnig gott aðgengi að mönnum eins og Óla Jóh, Arnari Grétars, Óskari Bjarna í handboltanum og Finni í körfunni ásamt mörgu fleira fagfólki. Tækifærin fyrir mig til þess að læra eru því mjög mikil hér inni í félaginu."

En hvernig sér Hallgrímur þetta nýja verkefni sem hann var að taka að sér?

„Þetta er stórt og krefjandi verkefni og ein aðal ástæða þess að ég tók það að mér er krafturinn sem hefur komið inn með nýjum framkvæmdastjóra. Hann Styrmir Þór er ótrúlega metnaðarfullur og við erum sammála um það að við viljum færa umhverfi yngri flokka félagsins á hærra plan."

Aðspurður um hvernig hann ætli að nálgast það verkefni nefnir Hallgrímur það að móta nýja stefnu fyrir yngri flokka Vals. Hann vilji bæta æfingaumhverfið fyrir iðkendur félagsins þar sem allir fá verkefni við hæfi og líði vel hjá félaginu.

„Síðan þurfum við að auka þjónustu hvað varðar aukaæfingar, námskeið og sérhæfðar æfingar. Við viljum búa til aðlaðandi vinnuumhverfi fyrir þjálfara til að þau geti þróast í starfi og svo vil ég færa umgjörð elstu flokkanna nær því sem er í umhverfi meistaraflokkana. Ég gæti haldið lengi áfram en þetta eru svona stærstu verkefnin."

Einn sá efnilegasti
Þrátt fyrir ungan aldur er Hallgrímur sprenglærður þjálfari með BSc gráðu í íþróttafræði, mastersgráðu í íþróttavísindum og þjálfun auk mastersgráðu í heilsufræði og kennslu.

„Það er ljóst að Hallgrímur er einn sá efnilegasti sem við eigum í dag og ljóst að þetta er mikill fengur fyrir félagið. Hann er vel skólaður í þessum fræðum með tvær mastersgráður og hefur komið inn til okkar af miklum krafti. Það er alveg ljóst hvert verkefnið hjá okkur er. Það mun fjölga gríðarlega í hverfinu hér á næstu árum og í dag eigum við aðeins einn uppalinn leikmann í Bestu deild karla. Þessu ætlum við að breyta og ráðning Hallgríms er liður í því," segir Styrmir Þór Bragason, framkvæmdastjóri Vals.
Athugasemdir
banner