Franski sóknarmaðurinn Kylian Mbappe og Nasser Al Khelaifi, forseti Paris Saint-Germain, rifust heiftarlega fyrir síðasta heimaleik franska fótboltamannsins á sunnudag en þetta segir Le Parisien.
Á föstudag tilkynnti Mbappe að þetta yrði hans síðasta tímabil með PSG.
Samningur hans rennur út í sumar og er hann talinn vera á leið til Real Madrid, en það verður væntanlega kynnt eftir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.
Í myndbandinu sem Mbappe sendir frá sér þakkaði hann öllum hjá PSG fyrir farsæla samstarfið en Al Khelaifi var ekki nefndur á nafn og fór það svakalega fyrir brjóstið á forsetanum.
Le Parisien segir frá því að Al Khelaifi hafi farið til Mbappe fyrir síðasta heimaleikinn gegn Toulous á sunnudag til að fá útskýringar á því af hverju Mbappe nefndi hann ekki á nafn og í kjölfarið braust út heiftarlegt rifrildi.
Samkvæmt sömu heimildum heyrðust öskur en talið er að ástæðan fyrir því að Mbappe hafi ekki nefnt hann er vegna þess að forsetinn hafi neytt hann til að skrifa undir nýjan samning árið 2022, gegn vilja leikmannsins.
Athugasemdir