„Það eru bara vonbrigði að tapa. Við þurftum ekki að tapa þessum leik. Það voru forsendur í dag til að vinna Víking," sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, eftir 2-0 tap gegn Íslands- og bikarmeisturum Víkings í Fossvogi í kvöld.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 0 FH
Þarna voru tvö efstu lið Bestu deildarinnar að mætast, en þau voru bæði með tólf stig fyrir leikinn.
„Við spiluðum á löngum köflum mjög vel. Við vorum sjálfum okkur verstir. Víkingarnir eru öflugir í fyrirgjöfum og í föstum leikatriðum. Við náðum ekki að verjast því en fyrir utan það, þá sköpuðu þeir ekkert."
„Aðalvonbrigðin eru eftir að við verðum manni fleiri, að við látum boltann ekki ganga og þreytum þá; hreyfa þessa lágu blokk sem þeir voru komnir í. Þess í staðinn héldum við áfram að fara í lengri bolta og það var klaufalegt af okkar hálfu."
„Víkingar eru með virkilega gott lið og það er valinn maður í hverju rúmi. Við þurfum bara að halda áfram. Það má ekki gleyma því að Víkingar eru búnir að spila fjóra heimaleiki og við erum bara búnir að spila einn."
FH hefur komið nokkuð á óvart í byrjun tímabilsins.
„Þetta hefur alls ekkert komið mér á óvart. Við hefðum viljað gera betur í þessum leik. Við þurfum bara að safna kröftum og halda áfram. Þetta má ekki slá okkur út af laginu. Við höfum sýnt karakter g samstöðu í leikjunum. Við erum að vinna grunnvinuna. Þá gerast oft góðir hlutir hjá FH," sagði Heimir.
Athugasemdir