Eins og Ómar (þjálfari) er búinn að segja í viðtölum þá erum við loksins orðnir alvöru menn, viljum þetta virkilega
„Ég tek sprettinn, sé að boltinn er að renna fyrir mig og ég fer á helvíti mikinn sprett. Svo í síðasta skrefinu finn ég eitthvað í framan lærinu, eins og ég sé að togna," sagði Atli Þór Jónasson við Fótbolta.net í dag.
Atli skoraði fyrra mark HK gegn KR í gær en þurfti að fara af velli vegna meiðsla eftir markið. Atli vann kapphlaup við Sigurpál Sören Ingólfsson, markvörð KR, og kom boltanum í netið af stuttu færi en spretturinn kostaði meiðsli.
Atli skoraði fyrra mark HK gegn KR í gær en þurfti að fara af velli vegna meiðsla eftir markið. Atli vann kapphlaup við Sigurpál Sören Ingólfsson, markvörð KR, og kom boltanum í netið af stuttu færi en spretturinn kostaði meiðsli.
Lestu um leikinn: KR 1 - 2 HK
„Ég held að ástæðan hafi verið að ég hitaði ekki nógu vel upp fyrir leikinn. Plús það var þetta á grasi (fyrsti grasleikurinn í sumar hjá HK). Í síðasta skrefinu var tilfinningin eins og einhver hefði stungið mig í lærið og fann strax að ég gæti ekki haldið áfram. Ég hef aldrei fundið fyrir svona áður, ég fór aftur inn á en ég var bara haltrandi."
Kristján Snær Frostason, bakvörður HK, átti langa sendingu upp völlinn sem Finnur Tómas Pálmason, varnarmaður KR, skallaði til baka í átt að eigin marki. Sigurpáll var kominn langt út úr markinu og skallinn fór framhjá honum og Atli komst í boltann.
„Þegar Kristján sendi boltann hélt ég að boltinn væri að koma á mig en það misheppnaðist eitthvað. KR-ingurinn skallar boltann til baka og ég sé þá að markmaðurinn var kominn lengst út fyrir teiginn. Þá ákvað ég bara að „go for it". Markmaðurinn hefði alveg getað náð honum en ég var fyrstur í boltann sem kom mér aðeins á óvart. Ég er ansi hraður þegar ég er kominn á ferðina en þetta kom mér samt smá á óvart. En geggjað að skora á móti KR."
Atli er ekki alveg viss hvers kyns meiðslin eru en það ætti að koma í ljós í dag eða á morgun.
„Það var rosa erfitt að standa upp úr rúminu í morgun. Ég tek daginn í dag og á morgun alveg rólegur. Ég fer bara í heitt og kalt og sé hvernig ég verð. Það er bikarleikur á fimmtudaginn gegn Fylki en ég held að ég nái honum ekki. Við sjáum svo til með Valsleikinn eftir viku. Ég hitti kannski á sjúkraþjálfaranum okkar seinni partinn í dag eða á morgun."
Liðsheildin geggjuð
HK hefur unnið tvo leiki í röð eftir erfiða byrjun á mótinu. Sigrarnir hafa komið gegn Víkingi og KR.
„Eins og Ómar (þjálfari) er búinn að segja í viðtölum þá erum við loksins orðnir alvöru menn, viljum þetta virkilega. Það var ekki til staðar í leikjunum gegn FH og ÍA. Við viljum vinna leikina, berjast í 90 mínútur fyrir hvern annan og liðsheildin er geggjuð."
Var einhver liðsfundur fyrir Víkings leikinn?
„Nei, ekki þannig. Við fundum alltaf fyrir leiki og erum að horfa á myndbönd og svona. En það var ekkert svona: „Ef við vinnum ekki þennan leik þá erum við búnir" augnablik. Við tökum bara einn leik í einu og gerum okkar besta."
HK hefur spilað með þriggja miðvarðakerfi í síðustu tveimur leikjunum. Hlutverkið hjá Atla breyttist ekki mikið við það.
„Við erum í fimm manna línu þegar við verjumst og svo í þriggja manna þegar við sækjum. Það breytist ekki neitt, ég er ennþá bara frammi. Pressan frá mér kannski breytist aðeins, hvernig ég pressa andstæðinginn. Annars er það ekki mikið."
Strax búinn að þrefalda
Atli er kominn með þrjú mörk í deildinni sem er þrefalt meira en í fyrra.
„Ég er nokkuð sáttur með það, en leiðinlegt að meiðast í gær. Við skulum vona að ég verði fljótur á völlinn aftur. Ég ætla bara halda áfram."
Athugasemdir