Jurgen Klopp er hættur hjá Liverpool en hann er þó enn að kveðja borgina, hans síðasta kveðjustund verður í kvöld þegar hann kemur fram á sérstökum viðburði sem kallast 'Kvöldstund með Jurgen Klopp' og verður á M&S Bank Arena við hafnarsvæðið.
Klopp ætlar að búa á spænsku eyjunni Mallorca en verið er að framkvæma endurbætur á glæsihýsi sem hann og Ulla eiginkona hans keyptu á eyjunni.
Villan er sögð fjölskylduparadís en Klopp keypti hana upphaflega á fjórar milljónir evra í júní 2022, af svissneska viðskipta- og listamanninum Rolf Knie. Þýski stjórinn ákvað að ráðist yrði í miklar endurbætur.
Á meðan verið er að gera nýja heimilið klárt þá munu hjónin gista á Kimpton Aysla hótelinu á eyjunni.
Klopp var við stjórnvölinn hjá Liverpool í níu ár og greindi frá því að hann væri að verða orkulaus og þurfti að taka sér frí. Hann ætlar þó ekki að vera með tærnar uppi í lofti því hann hefur greint frá því að hann hyggist ferðast um heiminn.
Þá ætlar hann að vera viðstaddur úrslitaleik Meistaradeildarinnar á laugardaginn þegar hans fyrrum félag Borussia Dotmund mætir Real Madrid og horfa á einhverja leiki á EM en keppnin verður haldin í hans heimalandi, Þýskalandi.
Athugasemdir