Áhugi Liverpool á Musiala eykst - Arsenal og Newcastle hafa áhuga á Sane - Simons orðaður við Man Utd
   fim 29. ágúst 2024 15:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Möguleiki að Alfreð leggi skóna á hilluna næsta sumar
'Markmiðið er að gera þetta að góðu tímabili með Eupen'
'Markmiðið er að gera þetta að góðu tímabili með Eupen'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfreð og Gulli.
Alfreð og Gulli.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Lagði landsliðsskóna á hilluna á mánudag.
Lagði landsliðsskóna á hilluna á mánudag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfreð Finnbogason ræddi við Fótbolta.net í vikunni. Hann er leikmaður Eupen í Belgíu, á þar eitt ár eftir af samningi. Hann tilkynnti í byrjun vikunnar að landsliðsferli sínum væri lokið.

Alfreð er 35 ára framherji sem skrifaði undir tveggja ára samning í Belgíu síðasta haust. Það fór ekki vel hjá Eupen á síðasta tímabili og liðið féll úr úrvalsdeildinni. Alfreð var spurður hvort það væru einhverjar líkur á því að hann færi frá Eupen fyrir gluggalok.

„Það er aldrei neitt niðurneglt í fótbolta. Þegar ég fór til Eupen þá var ég ekki heldur á leiðinni neitt."

„Það var rosalega mikil óvissa í Eupen í sumar eftir að við féllum, lítið upplýsingaflæði og það vissi í raun enginn hvað myndi gerast. Við fengum þjálfara þegar það voru búnar fimm vikur af undirbúningstímabilinu,"
segir Alfreð.

„Eupen er búið að tilkynna það að félagið vildi fara ákveðna leið með ungum leikmönnum. Það eru samt margir eldri leikmenn innan hópsins sem eru á samningi. Það er rosalega skrítin staða. Á sama tíma ákvað ég að taka slaginn hér, gera það besta úr því; fara í samkeppnina. Hvort sem það lítur vel eða illa út í dag, þá er það bara eitthvað sem ég ætla að keyra á. Mér líður ofboðslega vel núna líkamlega, búinn að vera heill í góðan tíma og komst vel í gegnum undirbúningstímabilið. Markmiðið er að gera þetta að góðu tímabili með Eupen."

Horfandi í það að samningurinn rennur út næsta sumar og landsliðsskórnir eru komnir upp í hillu, gæti þetta verið þitt síðasta tímabil á leikmannaferlinum?

„Það er einn möguleiki, en ég er búinn að taka neina ákvörðun um það. Ég verð 36 ára þá og á þessum tíma tekur maður þetta svolítið ár fyrir ár, samning fyrir samning. Fyrir ári gerði ég tveggja ára samning og þá var klárt að ég yrði hér í tvö ár. Það er aðeins erfiðara að vera flakka á milli á hverju ári þegar þú ert kominn með börn og fjölskyldu."

„Ég mun bara sjá hvernig staðan er, hvað sé í boði og hvernig mér líður í lok tímabilsins. Þetta er ekki ákvörðun sem er væntanleg á næstunni, margir þættir sem munu spila inn í. Það er ekki allt í manns eigin höndum."


Svekktur að missa vin sinn til Englands en ánægður fyrir hans hönd
Alfreð og Guðlaugur Victor Pálsson voru liðsfélagar í landsliðinu og í yngri flokkum Fjölnis. Þeir léku saman með Eupen á síðasta tímabili. Guðlaugur Victor fékk kallið frá Wayne Rooney og Plymouth í sumar og hélt til Englands.

Var svekkjandi að sjá Gulla yfirgefa félagið og fara til Englands?

„Já, auðvitað var það svekkjandi fyrir mig. Við vorum saman í þessu og geggjað að hafa vin sinn hérna. En á sama tíma er ég náttúrulega ánægður fyrir hann að hann geti farið á hærra getustig og spilað í Championship. Það var 'no brainer' að stökkva á það tækifæri þegar það kom upp. Ég er stoltur fyrir hans hönd, hann átti gott tímabil í ótrúlega erfiðum aðstæðum hér í fyrra; mikið um breytingar, mikið um vonbrigði, við náðum aldrei almennilegu skriði. Ég er ánægður fyrir hans hönd að hann geti fengið að spila á hærra getustigi. Ég vona að honum gangi sem allra best," segir Alfreð.
Athugasemdir
banner
banner