Klopp hefur áhuga á Malen - Hvert fer Osimhen? - Juventus leitar að manni í stað Pogba - Man Utd og Chelsea berjast um brasilískan miðjumann
   þri 29. október 2013 09:00
Alexander Freyr Tamimi
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Eitt skref afturábak - Tvö skref Fram?
Alexander Freyr Tamimi
watermark Guðmundur Steinn gekk til liðs við Fram í gær.
Guðmundur Steinn gekk til liðs við Fram í gær.
Mynd: Heimasíða Fram
watermark Ásgeir Marteinsson var frábær með HK.
Ásgeir Marteinsson var frábær með HK.
Mynd: Heimasíða Fram
watermark Alexander Már steig sín fyrstu skref í Pepsi-deildinni með ÍA í sumar.
Alexander Már steig sín fyrstu skref í Pepsi-deildinni með ÍA í sumar.
Mynd: Fram
Ég skal alveg viðurkenna það að ég hef aldrei verið mikill Framari. Ég veit ekki af hverju, það hefur bara aldrei beint verið minn klúbbur.

Ég horfi hins vegar með mikilli aðdáun á það sem er að gerast hjá félaginu núna. Ég held ég hafi aldrei séð annan eins viðsnúning hjá liði í efstu deild á Íslandi og þetta er hreint út sagt ótrúlega spennandi tilraun hjá liðinu.

Þessi virkilega athyglisverða atburðarrás hófst vissulega með ráðningunni á Bjarna Guðjónssyni sem þjálfara. Bjarni hefur enga reynslu af þjálfun en hefur verið einn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar undanfarin ár og verður gaman að sjá hvernig hann spjarar sig. Einhvern veginn hef ég trú á því að hann sé sniðinn í þetta starf.

Margir ráku upp andköf þegar Fram horfði svo á eftir lykilmönnum síðustu ára til annarra liða, stuttu eftir ráðningu Bjarna. Þeir Almarr Ormarsson og Kristinn Ingi Halldórsson eru horfnir á braut, sem og Sam Hewson og allir útlendingarnir og jafnvel enn fleiri. Stórt skarð höggvið í lið sem var ekki með neitt brjálaða breidd.

Bjarni kom í viðtal og sagði að þetta væri bara hluti af nýrri stefnu liðsins, sem ætlaði að ná sér í unga leikmenn og byggja upp lið á þann hátt. Og þeir hafa heldur betur staðið við stóru orðin!

Við höfum horft á Fram tryggja sér leikmenn á borð við Guðmund Stein Hafsteinsson, Ásgeir Marteinsson, Ósvald Jarl Traustason, Alexander Má Þorláksson, Einar Bjarna Ómarsson, Arnþór Ara Atlason og Hafstein Briem.

Þetta eru allt frekar ungir leikmenn, einhverjir með reynslu úr Pepsi-deildinni en aðrir ekki. Það er óhætt að segja að þetta sé mikið „gambl“. Hver veit hvort að leikmenn á borð við Einar Bjarna, Ósvald Jarl, Arnþór Ara og Ásgeir Marteinsson nái að slá í gegn í Pepsi-deildinni?

Það veit enginn, en eitt vita þó allir sem fylgjast með fótbolta. Þetta eru allt bráðefnilegir leikmenn sem gætu blómstrað á stóra sviðinu. Fram er tilbúið að taka þann séns að svo verði.

Það verður virkilega spennandi að sjá hvort Fram fái fleiri unga og efnilega leikmenn. Það virðist vera mjög auðvelt að sannfæra þá um að spennandi tímar séu framundan undir stjórn Bjarna. Bjarni hefur nánast flutt í Fram-heimilið, hann er þarna á hverjum degi að sitja fyrir á myndum með nýjum leikmönnum. Ekki útilokað að fleiri bætist við.

Þessi tilraun Fram er allavega virkilega virðingaverð og ég eiginlega vona að þetta gangi upp. Þetta er flott stefna, og ef Framarar eru tilbúnir að gefa þessu tíma, sætta sig við að þetta smelli kannski ekki allt saman á fyrstu leiktíð, þá gætu þeir átt von á virkilega góðri uppskeru.

Stundum þarf maður einfaldlega að taka eitt skref aftur á bak til að fara svo tvö skref fram.
Athugasemdir
banner
banner
banner