Liverpool vann í dag sinn áttunda deildarleik í röð þegar liðið slátraði Tottenham, 4-0, á Anfield. Á árinu 2014 hefur liðið ekki enn tapað í deildinni. Liverpool hefur unnið 13 af 15 leikjum sínum og gert tvö jafntefli.
Liverpool er á toppi deildarinnar með 71 stig eftir 32 leiki. Liðið hefur skorað 88 mörk og er með 49 mörk í plús í markatölu. Þeir vinna nánast alltaf stórt og sannfærandi, þeir eru fullir sjálfstrausts, þeir eru með besta framherja deildarinnar innan sinna raða og enginn virðist geta stöðvað þá.
Staðan er einfaldlega sú að Liverpool á ótrúlega góða möguleika á að verða enskur meistari í ár. Liðið er í þeirri stöðu þegar sex leikir eru eftir af tímabilinu, að ef það vinnur sína leiki mun það vinna titilinn. Hver hefði trúað þessu fyrir tímabilið? Sjálfsagt enginn.
Ég, og flestir aðrir, hafa átt erfitt með að taka Liverpool alvarlega í titilbaráttunni á tímabilinu. Gengi liðsins hefur einfaldlega verið svo lélegt undanfarin ár, að þegar þeir komast á gott skrið, þá er samt einhvern veginn afar ólíklegt að það muni endast. Þeir hljóta að klúðra þessu einhvern tíma, annað getur ekki verið. Eða hvað?
Árið 2009 var liðið í þokkalegum séns á að vinna deildina, en þrátt fyrir stórkostlegan lokasprett var liðið alltaf að elta Manchester United, sem missteig sig ekki nóg. Nú er hins vegar Liverpool að horfa upp á það að vera í algerri lykilstöðu, og einungis þeir sjálfir geta komið í veg fyrir að titillinn snúi aftur á Anfield eftir 24 ára fjarveru.
Margir segja að Liverpool eigi skilið að verða loksins meistari. Liðið spilar ótrúlega skemmtilegan fótbolta og hefur ótrúlega oft keyrt yfir andstæðinga sína. Brendan Rodgers er að gera kraftaverk og hefur tekist að rífa liðið upp úr algerri meðalmennsku og í að verða eitt besta lið Englands. Hann hefur vissulega fengið góða aðstoð frá Luis Suarez, Daniel Sturridge og fleirum, en það er einfaldlega ótrúlegt að horfa á þetta lið spila fótbolta.
Enn þann dag í dag finnst manni, sem stuðningsmanni, að það sé afar ólíklegt að Liverpool verði meistari. Við höfum svo oft orðið fyrir vonbrigðum, af hverju ætti það að breytast? En ef maður hrindir svartsýnistilfinningunni í burtu og horfir á hlutina frá rökréttu sjónarhorni – þá er einfaldlega ekkert sem ætti að koma í veg fyrir að Liverpool geti unnið titilinn.
Liverpool hefur í flest skipti á tímabilinu sloppið við að misstíga sig illa gegn slakari liðum. Vissulega hafa komið mistök, en oft hefur liðið komið ótrúlega sterkt til baka. Mistökin eru mun færri og virðast hafa mun minni áhrif á sjálfstraust liðsins.
Helstu hindranirnar núna eru Manchester City og Chelsea. Þeir síðarnefndu eru að gera dýrkeypt mistök og hafa tapað gegn Aston Villa og Crystal Palace, en City er ennþá mikil ógn. Bæði þessi lið eiga eftir að koma á Anfield og þeir leikir gætu ráðið úrslitum.
Miðað við leikina á útivelli gegn þessum liðum mega stuðningsmenn alveg vera bjartsýnir, þó vissulega sé erfitt verkefni framundan. En eitt er víst; það væri fáránlegt að segja að Liverpool eigi ekki góðan möguleika á að verða Englandsmeistari 2014.
Athugasemdir