ÍR-ingar tylltu sér aftur á toppinn í Lengjudeild karla með því að vinna 1-0 sigur á Selfyssingum á JÁVERK-vellinum í kvöld.
Selfyssingar voru sterkari aðilinn til að byrja með og virtist það aðeins tímaspursmál hvenær fyrsta markið kæmi, en það kom úr heldur óvæntri átt miðað við gang leiksins.
Alexander Berntsson, leikmaður Selfoss, missti boltann frá sér á slæmum stað og var það Guðjón Máni Magnússon sem nýtti sér mistök hans og kom boltanum framhjá Robert Blakala í markinu.
ÍR-ingar sköpuðu sér hættulegri færi eftir markið en fóru illa með góðar stöður. Guðjón Máni kom sér í tvö dauðafæri og Gils Gíslason eitt. Gott tækifæri til að gera út um leikinn, en Blakala vandanum vaxinn í markinu.
Liðin héldu uppi fjörinu í þeim síðari og sköpuðu þau sér tvö dauðafæri á einni mínútu. Raul Tanque, leikmaður Selfoss, rann til af fimm metra færi og færið sömuleiðis áður en Emil Nói SIgurhjartarson átti skot sem Blakala varði.
ÍR-ingar gátu endanlega gert út um leikinn á lokamínútunum er fyrirliðinn Marc Mc Ausland kom sér í skot í teignum eftir mikinn darraðardans en enn og aftur varði Blakala. Stórleikur hjá honum í kvöld, en grátlegt fyrir hann að það hafi ekki skilað að minnsta kosti einu stigi.
Lokatölur 1-0 fyrir ÍR sem kemur sér aftur á toppinn með 32 stig á meðan Selfoss er í 9. sæti með 13 stig.
Lengjudeild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. ÍR | 15 | 9 | 5 | 1 | 27 - 12 | +15 | 32 |
2. Njarðvík | 15 | 8 | 7 | 0 | 36 - 14 | +22 | 31 |
3. Þróttur R. | 15 | 8 | 4 | 3 | 28 - 23 | +5 | 28 |
4. Þór | 15 | 8 | 3 | 4 | 34 - 22 | +12 | 27 |
5. HK | 15 | 8 | 3 | 4 | 26 - 18 | +8 | 27 |
6. Keflavík | 15 | 7 | 4 | 4 | 34 - 24 | +10 | 25 |
7. Völsungur | 15 | 5 | 3 | 7 | 25 - 31 | -6 | 18 |
8. Grindavík | 15 | 4 | 2 | 9 | 29 - 42 | -13 | 14 |
9. Selfoss | 15 | 4 | 1 | 10 | 15 - 30 | -15 | 13 |
10. Fylkir | 15 | 2 | 5 | 8 | 20 - 26 | -6 | 11 |
11. Fjölnir | 15 | 2 | 5 | 8 | 22 - 36 | -14 | 11 |
12. Leiknir R. | 15 | 2 | 4 | 9 | 13 - 31 | -18 | 10 |
Athugasemdir