Liverpool undirbýr mettilboð í Alexander Isak - Rasmus Höjlund nálgast Napoli
   lau 30. ágúst 2025 14:17
Ívan Guðjón Baldursson
Forest kaupir bakvörð frá Juventus (Staðfest)
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Nottingham Forest er búið að ganga frá kaupum á ítalska bakverðinum Nicoló Savona fyrir 13 milljónir evra.

Forest hefur verið orðað við ýmsa bakverði síðustu vikur en endar á að kaupa Savona, sem er 22 ára gamall og gerir fimm ára samning við félagið.

Savona er hægri bakvörður að upplagi, sem getur þó einnig spilað sem miðvörður eða hægri kantur. Hann er uppalinn hjá Juventus frá barnsaldri og hefur í heildina spilað 40 keppnisleiki fyrir meistaraflokkinn þar á bæ, auk þess að eiga fjóra leiki að baki fyrir yngri landslið Ítalíu.

Forest var einnig á eftir Lutsharel Geertruida og José Angel Carmona fyrir bakvarðarstöðuna, en endaði á að kaupa Savona. Ítalinn mun berjast við Ola Aina og Neco Williams um sæti í byrjunarliðinu.

Talið er að Forest sé enn í leit að leikmanni sem getur spilað í vinstri bakverði til að breikka hópinn. Nuno Espírito Santo þjálfari sagði það eftir 1-1 jafntefli liðsins gegn Crystal Palace um síðustu helgi.

Savona er níundi leikmaðurinn sem Nottingham Forest fær til sín í sumar.


Athugasemdir
banner