
Lestu um leikinn: Selfoss 3 - 2 Þór
Selfoss lagði Þór á JÁVERK-vellinum í dag í 20. umferð í Lengjudeild karla.
Selfoss hefur verið í veseni að undanförnu á meðan Þór hafði unnið fimm síðustu leiki sína í röð fyrir viðureign dagsins.
Selfoss átti mjög góðan seinni hálfleik og skoraði þrjú mörk í honum.
„Mér fannst heilt yfir frammistaðan mjög góð en seinni hálfleikurinn var frábær og sá langbesti sem við höfum sýnt í sumar. Við spiluðum hér við verulega sterkt lið Þórs sem er í toppbaráttunni og ég veit hvenær þeir töpuðu leik síðast. Frammistaðan, hugarfarið og dugnaðurinn skilaði þremur stigum," sagði Bjarni að leikslokum.
Selfoss hefur átt erfitt með að tengja sigurleiki í sumar.
„Við þurfum að byrja alla leiki eins og við byrjuðum seinni hálfleik. Við þurfum að hafa kjark, þor og dugnað ef að hann er fyrir hendi því inná milli eru flott gæði í þessu liði og liðsvinna er alltaf að verða meiri og meiri hjá okkur eftir það sem líður á mótið."
Frammistaða Selfoss var mjög góð í seinni hálfleik og Bjarni sáttur við það.
„Maður er náttúrulega hamingjusamastur með stigin og að gera hérna þrjú mörk á móti Þór er bara geggjað."
Selfyssingar eru komnir úr fallsæti en hinsvegar ekki úr fallbaráttu. Það eru aðeins 2 leikir eftir, gegn Leikni úti og Keflavík heima.
„Þetta eru bara bikarúrslit, hver einasti leikur. Þetta mótsfyrirkomulag sem var sett á hérna fyrir nokkrum árum með svona 'play-offs' í Lengjunni og slútt spilinu í Bestu deild er að skila okkur alveg ótrúlega spennandi sumri í ár."
Þetta var leikur tveggja hálfleika og heimamenn áttu erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik en komu mun sterkari út í seinni hálfleikinn.
„Taktíkslega sem við gerðum öðruvísi við stigum einfaldlega bara hærra á völlinn og settum meiri pressu, þannig að háu boltarnir komu ekki nema í power play-inu hérna undir lokin. Það var bara vel gert hjá okkur."