Tottenham í bílstjórasætinu um Akanji - Chelsea undirbýr tilboð - Verður Rogers arftaki Elliott hjá Liverpool?
   sun 31. ágúst 2025 10:34
Brynjar Ingi Erluson
Wissa sendir frá sér langa yfirlýsingu - Vill fara til Newcastle
Mynd: EPA
Kongómaðurinn Yoane Wissa vill komast frá Brentford fyrir gluggalok og hefur nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann reynir að þvinga fram sölu til Newcastle United.

Brentford hefur hafnað tveimur tilboðum frá Newcastle í Wissa í sumar.

Leikmaðurinn hefur ekki verið með Brentford í fyrstu leikjum tímabilsins og neitaði um tíma að æfa með liðinu, en hann telur ekki sanngjarnt að Brentford sé að halda honum gegn eigin vilja.

Nú hefur hann fengið nóg. Glugginn lokar á morgun og hefur Wissa sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann er skýr með að vilja fara og ganga í raðir Newcastle.

„Síðustu vikur hafa verið miklar vangaveltur um framtíð mína hjá Brentford og vil ég því tjá mig beint við ykkur og vera hreinskilinn með stöðuna. Ég hef verið þögull sem gröfin stærstan hluta sumars, en nú þegar aðeins nokkrir klukkutímar eru eftir af glugganum er ég tilneyddur til þess að gera öllum ljóst fyrir að ég vilji fara frá Brentford. Ég tel félagið hafa verið óréttlátt með því að standa í vegi fyrir mér þrátt fyrir að því hafi borist sanngjörn tilboð í sumar.“

„Frá fyrsta degi hef ég alltaf gefið 100 prósent fyrir Brentford eða síðan ég samdi við félagið árið 2021. Ég er stoltur af því sem við byggðum saman og hef aldrei tekið þessu tækifæri sem sjálfsögðum hlut.“

„Brentford mun alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu og hef ég alltaf sýnt fagmennsku, bæði innan sem utan vallar. Það var heiður að klæðast treyjunni í 149 leikjum og skora 49 mörk,“
segir Wissa meðal annars í yfirlýsingunni.

Framherjinn tjáir sig opinskátt um þær umræður sem áttu sér stað við félagið í sumar og að honum hafi verið lofað því að Brentford myndi ekki standa í vegi fyrir honum ef sanngjarnt tilboð kæmi á borðið.

Talar hann þá um formlegt tilboð frá öðru félagi, sem í þessu samhengi er Newcastle, en hann er afar ósáttur með stöðuna og átti ekki annarra kosta völ en að fara með málið á samfélagsmiðla og bíður hann nú og vonar eftir því að Brentford gefi eftir og leyfi honum að fara til Newcastle.


Athugasemdir
banner