Hollenski miðvörðurinn Jan Paul van Hecke ætlar ekki að framlengja samning sinn við enska úrvalsdeildarfélagið Brighton þrátt fyrir að félagið sé reiðubúið að gera hann að launahæsta leikmanni félagsins. VI segir frá þessu í dag.
Van Hecke var ein af stjörnum Brighton-liðsins á síðustu leiktíð og tókst með frammistöðu sinni að vinna sér sæti í hollenska landsliðinu.
Þessi 25 ára gamli miðvörður kom til Brighton frá NAC Breda árið 2020, en var lánaður til bæði Heerenveen og Blackburn Rovers áður en honum tókst loks að vinna sér sæti í liði Brighton.
VI segir að Brighton hafi ítrekað reynt að framlengja samning Van Hecke, en hann hefur hafnað tilboðunum, þar á meðal einu sem hefði gert hann að launahæsta leikmanni liðsins.
Hann vill eiga möguleika á að spila í Meistaradeild Evrópu og telur hann það ekki vera raunhæfan draum hjá Brighton.
Newcastle United og Tottenham hafa bæði áhuga á að fá hann í sumar. Samkvæmt ensku miðlunum sendi Newcastle fyrirspurn á Brighton og fékk þau skilaboð að hann muni kosta að minnsta kosti 45 milljónir punda.
Samningur Van Hecke við Brighton rennur út árið 2027 og er möguleiki á því að fleiri félög skrái sig í baráttuna eftir þessi tíðindi.
Athugasemdir