ÞAÐ styttist óðfluga í að 100. Íslandsmótið í knattspyrnu hefjist með leik Íslandsmeistara Breiðabliks og KR, sem fagnaði fyrsta Íslandsmeistaratitlinum 1912. Leikurinn fer fram á Kópavogsvellinum 1. maí. Það er vel við hæfi að fyrstu og síðustu meistarafélögin hefji orrustuna í vinsælustu íþróttagrein landsins. Eins og áður þá verða margir kallaðir, en aðeins einn útvalinn. Að leikslokum verður stemningin eins og hjá söngflokknum ABBA - The Winner Takes It All!
Þegar blásið verður til leiks þá reynir á þá ellefu leikmenn sem hefja leikinn hverju sinni fyrir lið sín - hvernig þeir standa sig þegar á hólminn er komið.
Fram að þeim tíma reynir mest á þjálfara liðanna og útsjónasemi þeirra. Nú er þeirra tími - að finna út réttu hlutina og raða þeim þannig að púsluspilið gangi upp. Undirbúningstímabilið er þjálfurum dýrmætt og þeirra verk er að finna út réttu blönduna; hverjir eru sterkastir og hverjir vinna best saman. "Einkavinavæðing" gengur ekki þegar sóst er eftir árangri - heldur verður þjálfarinn að vera naskur að finna réttu blönduna. Geta með knöttinn dugar þá ekki alltaf, heldur hugsunarháttur leikmanna og hvað þeir eru tilbúnir til að leggja á sig til að liðsheildin verði sem best.
Stöðugleiki og jafnvægi liðs byggist þó alltaf upp á einum leikmanni, ekki fleirum. Áranguri liðs ræðst af því að þjálfarinn finni þennan lykilmann og leggi það á herðar hans að stjórna liðsheildinni inni á vellinum. Það er þjálfarinn einn sem getur fundið stöðugleikann - fá leikstjórnandann til að koma aflvélinni í gang.
Þjálfarar leggja upp leikaðferðirnar, leikmennirnir sjá um að leika eftir þeim - og framkvæma á leikvelli.
"Þið leikið 4-2-4!"
Já, þegar við ræðum um að leggja upp leikinn, kemur upp í huga minn þjálfari sem þjálfaði mig í öðrum flokki Fram - þegar hann kom inn í búningsklefa og sagði; "Strákar, þið leikið 4-2-4!"
Annað sagði hann ekki fyrir leikinn; enda kannski lang best. "Þjálfarinn" hafði aldrei farið yfir nein leikkerfi með okkur og sýndi enga tilburði - að hann skildi galdra knattspyrnunnar, hvað þá að hann vissi um útfærslu á leikkerfinu 4-2-4 sem Brasilíumenn voru þekktir fyrir upp úr 1950 og færði þeim heimsmeistaratitla. Leikaðferð sem mörg af bestu félagsliðum Evrópu tóku síðan upp með góðum árangri.
Hvað um það - við fórum út á völl og lék ég sem hægri útherji, en brá mér við og við inn á miðjuna (Skipti um stöðu við Braga Jónsson í Markinu) og náði að skora tvö mörk sem miðherji í leiknum gegn Val á Háskólavellinum, sem eru nú bílastæði. Við fögnuðum sigri. Þjálfarinn kom til mín eftir leikinn og sagði; "Bubbi, þú lékst vel. 4-2-4 svínvirkaði!" Ég svarði; "Já, fannst þér það?" Báðir vorum við ánægðir - ég með tvö mörkin og sigur og "þjálfarinn" með 4-2-4 leikkerfið!
Sagði ekki mikið á fundum
Svo er önnur saga um þjálfara, sem ég læt hér flakka. Ungverjinn Gyula Nemes hjá Val 1978 og 1979 þótti afar fróður þjálfari og stjórnaði æfingum eins og herforingi og tók þátt í þeim - var þá skotvissasti maðurinn að Hlíðarenda. Hann fór vel yfir hlutina á æfingum, en var aftur á móti fámáll á fundum fyrir leiki - sagði ekki margt; yfirleitt þá það sama. Þegar Nemes ræddi eitt sinn um sóknarleikinn, sagð hann: "Kannski nær Albert (Guðmundsson) góðri sendingu fyrir markið. Kannski verður Guðmundur (Þorbjörnsson) á réttum stað og nær að skora!"
Þar með var fundurinn búinn. Yfirleitt átti Albert góðar sendingar utan af kanti í leikjum Vals og það voru ófá mörkin sem Guðmundur eða Atli Eðvaldsson og Ingi Björn Albertsson skoruðu eftir sendingar hans.
Það var ekki flóknari en það.
Góðir þjálfarar og snyrtilegur klæðnaður
Íslensk knattspyrna er svo heppin að eiga stóran hóp góðra þjálfara, sem kunna sitt fag og eru tilbúnir að standa með sínum skoðunum.
Þjálfarar okkar eru miklir fagmenn og koma skemmtilega fram í viðtölum þegar þeir tjá sig. Margir þeirra eru yfirvegaðir, en að sjálfsögðu er þeim oft misboðið - þeir eru ekki alltaf sáttir við utanaðkomandi áhrif á leik, eins og til dæmis frá dómurum og aðstoðarmönnum þeirra. Þannig hefur það alltaf verið og verður um ókomna tíð.
En þjálfararnir anda yfirleitt djúpt áður en þeir fara að tjá sig - láta ekki allt flakka í hita leiksins.
Þjálfarar okkar eru einnig snyrtilega klæddir. Það er ákveðinn söknuður að Guðmundur Benediktsson verður ekki í sviðsljósinu sem þjálfari með lið í efstu deild, Pepsí-deildinni. Guðmundur mætti til leiks í jakkafötum, í vel pressaðri skyrtu og með bindi er hann þjálfaði Selfoss sl. sumar. Þegar kalt var í veðri, var frakkinn með.
Aðrir þjálfarar voru einnig snyrtilega klæddir - í æfingabúning félaga sinna, eða þá að þeir völdu sér rétta litinn af peysum til að klæðast í hita leiksins. Það getur oft verið erfitt að finna út réttu meistarapeysuna! - já, eins og meistaralið.
Það er ekkert nýtt að knattspyrnuþjálfarar séu snyrtilega klæddir. Það hefur alltaf fylgt knattspyrnunni að menn mæti til leiks vel klæddir. Það gerðu gömlu sigursælu þjálfararnir okkar, eins og til dæmis Guðmundur Ólafsson, sem var þjálfari KR á árunum 1920 til 1938, Friðþjófur Thorsteinsson, þjálfari Fram á árum áður og Jóhannes Bergsteinsson, sem þjálfaði Valsliðið. Hann mætti til leiks í teinóttum jakkafötum og það má segja að það hafi verið; Toppurinn að vera í teinóttu! þegar hann stjórnaði Valsliðinu til sigurs í öllum mótum árið 1942.
Spennandi keppni framundan
Ég vil bjóða þjálfara sérstaklega velkomna til leiks á 100. Íslandsmótið, sem hefst 1. maí. Það verður gaman að fylgjast með þeim og leikmönnum þeirra í leik og starfi innan sem utan vallar. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að spennandi Íslandsmót er framundan, þar sem stór hópur vaskra manna mun há drengilega keppni. Menn koma til með að berjast innan vallar, en verða síðan vinir utan vallar!
Ábending til þjálfara!
Ég vil að lokum koma hér á framfæri góðri ábendingu til allra þeirra, sem fást við þjálfun á knattspyrnumönnum og þá sérstaklega til þeirra sem sjá um æfingar yngri knattspyrnumanna.
Að kenna ekki nema eitt í einu - fyrst það mikilvægasta.
Eðlileg röð er nauðsynleg; Kennið fyrst það einfalda, og síðan það flóknara!
Með boltakveðju,
Sigmundur Ó. Steinarsson