Danski markvörðurinn Andreas Larsen verður ekki áfram hjá Víkingi R. en hann kom sterkur inn hjá liðinu á síðasta tímabili.
Andreas er 28 ára gamall en hann kom til Víkings frá Lyngby fyrir síðasta sumar. Hann spilaði 20 leiki í Pepsi-deildinni fyrir Víking á síðustu leiktíð.
Víkingur var að ganga frá samningum við Þórð Ingason og mun hann verja mark Víkinga næsta sumar.
Andreas vonast til að finna sér nýtt félag á Íslandi. Hann vill byggja ofan á það góða tímabil sem hann átti hér á landi.
„Ég er leiður að halda ekki áfram hjá Víkingi, sérstaklega þar sem ég átti gott tímabil á síðasta ári, og ég vildi byggja ofan á það á næsta tímabili. Liðsfélagarnir voru líka góðir, og ég small inn í hópinn strax frá fyrsta degi. En því miður náðum við ekki samkomulagi, og þannig er fótboltinn stundum," sagði Andreas við Fótbolta.net.
„Ég og fjölskylda mín nutum þess að vera á Íslandi, það hafa allir komið vel fram við okkur. Ef það er möguleiki á því, þá vil ég vera í íslensku félagi næsta sumar."
„Ég er í augnablikinu að æfa með dönsku félagi, að halda mér í formi, þangað til það kemur í ljós hvar ég verð á næstu leiktíð."
Athugasemdir