Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   fim 30. maí 2019 12:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bestur í 2. deild: Mæli klárlega með því að fara út á land
Nikola Kristinn Stojanovic (Fjarðabyggð)
Nikola er leikmaður umferðarinnar.
Nikola er leikmaður umferðarinnar.
Mynd: Fjarðabyggð
Nikola í leik með Fjarðabyggð.
Nikola í leik með Fjarðabyggð.
Mynd: Aðsend
Fjarðabyggð er með sex stig eftir fjóra leiki.
Fjarðabyggð er með sex stig eftir fjóra leiki.
Mynd: Daníel Þór Cekic
Nikola Kristinn Stojanovic skoraði tvö mörk og fór fyrir Fjarðabyggð þegar liðið vann góðan sigur á Kára á útivelli í 2. deild karla um síðustu helgi.

Nikola Kristinn er leikmaður 4. umferðar í 2. deild að mati Fótbolta.net.

„Mér fannst frammistaðan hjá liðinu vera mjög flott í þessum leik, liðsheildin var stór partur af þessum sigri," segir hann um 4-1 sigurinn á Kára.

„Mér fannst mín frammistaða vera fín, þetta var besti leikurinn hjá mér í sumar allavega hingað til. Það var gaman að geta hjálpað liðinu mínu."

Nikola skoraði tvö mörk í leiknum eins og fyrr segir. Hans fyrstu mörk í sumar. „Það er klárlega eitthvað sem ég vil gera oftar og mér finnst gaman sem miðjumaður að skora mörk."

Spilar undir stjórn föður síns
Nikola spilaði í yngri flokkum Þórs en fór yfir í Fjarðabyggð 2017 og hóf þá að spila með meistarflokki Fjarðabyggðar. Þjálfari liðsins er faðir Nikola, hinn margreyndi Dragan Stojanovic. Hvernig er það að spila undir stjórn föður síns?

„Ég hef verið spurður að þessu nokkrum sinnum," segir Nikola. „Það truflar mig alls ekki að vera undir hans stjórn, hann horfir á mig eins og alla aðra leikmenn og segir hvað ég þarf að bæta eins og hann gerir við alla hina leikmennina. Mér finnst bara mjög gott að spila undir hans stjórn."

Margir ungir fótboltamenn eru kannski hræddir við það að fara út á land til þess að spila fótbolta þegar það tækifæri gefst. Nikola mælir hiklaust með því að gera það.

„Ég mæli klárlega með því að fara út á land og spila fullorðinsbolta. Það hefur hjálpað mér mjög mikið að vaxa sem leikmaður að hafa komið hingað til Fjarðabyggðar og spila með meistaraflokki."

Mjög góð reynsla og gerði mikið fyrir mig
Nikola er aðeins 18 ára en hefur verið að spila mikið með Fjarðabyggð undanfarin ár. Hans stefnir á að komast í atvinnumennsku í framtíðinni.

„Mín markmið eru að standa mig vel í sumar og bráðlega að spila ofar en 2. deild á Íslandi. Svo í framtíðinni er það vera atvinnumaður og spila í útlöndum."

Hann fór til Partizan Belgrad í Serbíu 2017 og var þar á reynslu. Partizan er risafélag í Serbíu og öðlaðist Nikola þar góða reynslu.

„Það var mjög góð reynsla fyrir mig og gerði mikið fyrir mig. Ég æfði með mjög góðum leikmönnum, tveir eða þrír eru núna að spila með aðalliðinu hjá Partizan."

„Ég hef ekki verið fara meira út eins og staðan er núna, en það er klárlega stefnan hjá mér að gera það."

Fjarðabyggð var fyrir tímabilið spáð tíunda sæti, en liðið hefur farið vel af stað og er með sex stig að loknum fjórum leikjum. „Við höfum byrjað ágætlega. Okkar markmið er að gera betur en í fyrra. Mér finnst við vera með gott lið og ég er bjartsýnn á það að við munum gera góða hluti í sumar," sagði Nikola að lokum.

Sjá einnig:
Bestur í 1. umferð: Isaac Freitas Da Silva (Vestri)
Bestur í 2. umferð: Kaelon Fox (Völsungur)
Bestur í 3. umferð: Aron Grétar Jafetsson (KFG)

Næsta umferð í 2. deild:
Næsta umferð í 2. deild hefst í dag. Fjarðabyggð á leik við Vestra á heimavelli á laugardag.

fimmtudagur 30. maí
16:00 Dalvík/Reynir-Selfoss (Boginn)

föstudagur 31. maí
19:15 ÍR-Kári (Hertz völlurinn)

laugardagur 1. júní
14:00 Fjarðabyggð-Vestri (Norðfjarðarvöllur)
16:00 KFG-Tindastóll (Samsung völlurinn)

sunnudagur 2. júní
12:00 Víðir-Völsungur (Nesfisk-völlurinn)
14:00 Leiknir F.-Þróttur V. (Fjarðabyggðarhöllin)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner