Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz til Bayerrn
   þri 09. júlí 2019 13:35
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bestur í 12. umferð: Talað um meiri læti hér áður fyrr
Atli Arnarson (HK)
Atli fagnar marki gegn Blikum.
Atli fagnar marki gegn Blikum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli er leikmaður 12. umferðar í Pepsi Max-deildar karla.
Atli er leikmaður 12. umferðar í Pepsi Max-deildar karla.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leiknum.
Úr leiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
HK-ingar sáttir í leikslok.
HK-ingar sáttir í leikslok.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Arnarson, leikmaður HK, er leikmaður 12. umferðar Pepsi Max-deildarinnar. Atli skoraði bæði mörk HK í 2-1 sigri á Breiðablik í Kópavogsslag. HK er því með montréttinn í Kópavoginum þessa dagana.

Sjá einnig:
Lið 12. umferðar - Baráttan unnin á miðjunni

„Það er extra sætt að vinna Breiðablik og sérstaklega fyrir stuðningsmennina," segir Atli við Fótbolta.net. „Við getum hins vegar ekkert dvalið lengur við þennan leik og þurfum bara að einbeita okkur að KA-leiknum á sunnudaginn."

„Mögulega var þetta mín besta frammistaða á tímabilinu, þetta var alla vega besta færanýtingin mín. Hvað varðar liðið þá höfum við átt nokkra fína leiki í sumar en munurinn á þessum leik og öðrum ágætis leikjum í sumar var að við stóðum af okkur pressuna frá Blikunum í lokin og náðum í öll þrjú stigin. Að því leyti var þetta kannski besta frammistaðan í 90+ mínútur."

Atli segir að sigrar gefi alltaf aukið sjálfstraust, sama hvort það sé gegn nágrönnunum eða ekki.

„Hvort sem það er á móti nágrönnum þínum eða öðrum þá gefur sigur manni alltaf sjálfstraust og við munum taka það með okkur í framahaldið."

Myndbandið hafi hjálpað frekar en eitthvað annað
Hann finnur fyrir því að rígur sé til staða á milli Breiðablik og HK, þó það hafi líklega verið meira áður fyrr.

„Ég finn fyrir því að það er aðeins meiri hiti í kringum leikina við Blikana og það gerir fólkið í klúbbnum extra ánægt að vinna þá. Menn tala nú samt um að það hafi verið meiri læti hér áður fyrr, en ég þekki það ekki nógu vel."

Fyrir leikinn var birt athyglisvert myndband á Blikar.is. „Það er ekki fræðilegur að Kópavogur verður rauður á sunnudaginn. Hann er grænn, er búinn að vera grænn og verður áfram grænn," sagði Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Blika, í myndbandinu og tóku aðrir leikmenn liðsins undir orð hans.

„Við sáum myndbandið í aðdraganda leiksins og ef það hefur gert eitthvað fyrir okkur þá hugsa ég að það hafi bara hjálpað okkur frekar en eitthvað annað," sagði Atli um myndbandið.

Tók okkur smá tíma að aðlagast
Ásgeir Börkur Ásgeirsson hefur komið sterkur inn í lið HK undanfarið og leikur hann með Atla á miðjunni.

„Hann hefur verið mjög flottur fyrir okkur innan sem utan vallar og smollið vel inn í hópinn. Eins og menn vita þá gefur hann allt í hvern einasta leik og gefur ekkert eftir, það vantar ekki. Hann er öðruvísi leikmaður en flestir sem ég hef spilað með áður og það tók okkur smá tíma að aðlagast hvor öðrum, en það hefur gengið mjög vel í undanförnum leikjum og ég held við séum að spila okkur betur saman með hverjum leiknum," segir Atli um liðsfélaga sinn.

Gaman að vera í klúbbnum
Atli hefur leikið með Tindastól, Leikni í Breiðholti, ÍBV og núna HK. Honum líður vel í félaginu sem hann samdi við síðasta vetur.

„Mjög vel. Þetta er mjög skemmtilegur hópur og það er gaman að vera í klúbbnum. Margir á svipuðum aldri í liðinu og mórallinn í klefanum góður. Það er ekkert ósvipað því sem ég kynntist hjá Leikni og Stólunum. Það var hins vegar aðeins alþjóðlegri stemning í Eyjum sem var líka mjög skemmtileg en á annan hátt."

HK-ingar eru komnir upp úr fallsæti í bili. Mótið er hálfnað. Hvernig líst Atla á blikuna fyrir seinni hluta tímabilsins?

„Mér líst vel á framhaldið. Við höfum verið að spila vel í síðustu þremur leikjum og náð að fylgja leikplaninu vel eftir. Vonandi náum við að taka það með okkur áfram í næstu leiki og halda áfram því sem við höfum verið að gera vel," sagði Atli Arnarson, leikmaður 12. umferðar í Pepsi Max-deild karla.

Domino's gefur verðlaun
Leikmenn umferðarinnar í Pepsi Max-deild karla og kvenna fá verðlaun frá Domino's í sumar.

Sjá einnig:
Bestur í 11. umferð: Kristinn Jónsson (KR)
Bestur í 10. umferð: Pálmi Rafn Pálmason (KR)
Bestur í 8. umferð: Valdimar Þór Ingimundarson (Fylkir)
Bestur í 7. umferð: Helgi Valur Daníelsson (Fylkir)
Bestur í 6. umferð: Steinar Þorsteinsson (ÍA)
Bestur í 5. umferð: Óskar Örn Hauksson (KR)
Bestur í 4. umferð: Bjarki Steinn Bjarkason (ÍA)
Bestur í 3. umferð: Kolbeinn Þórðarson (Breiðablik)
Bestur í 2. umferð: Torfi Tímoteus Gunnarsson (KA)
Bestur í 1. umferð: Tryggvi Hrafn Haraldsson (ÍA)


Athugasemdir
banner
banner