Kristinn Jónsson (KR)
Kristinn Jónsson, vinstri bakvörður KR, er leikmaður 11. umferðar í Pepsi-Max deildinni. Kristinn skoraði fyrra mark KR og var maður leiksins þegar liðið sigraði Breiðablik í toppslag í Vesturbænum í fyrrakvöld
„Tilfinningin var geggjuð enda er fátt skemmtilegra heldur en uppskera 3 stig eftir að liðið hefur lagt á sig þessa miklu vinnu í 90+ mínutur og þá sérstaklega á móti eins sterku liði og Breiðablik er," sagði Kristinn við Fótbolta.net um leikinn.
Kristinn er uppalinn hjá Breiðabliki en hann fagnaði markinu gegn gömlu félögunum og segir ekkert annað hafa komið til greina.
„Nei í raun ekki enda er ég leikmaður KR í dag og kem að sjálfsögðu til með að fagna öllum þeim mörkum sem maður skorar óháð því hver mótherjinn er."
Kristinn skoraði með skoti fyrir utan teig en hann fékk boltann við vítateigshornið og fór á milli tveggja varnarmanna áður en hann lét vaða. Hann hafði ekki hugsað sér að skjóta á markið þegar hann fékk boltann.
„Upprunalega planið var ekki að skjóta á markið en mér fannst Blikinn kom allt of hratt í pressu á mig og ákvað ég því leika á hann sem kom mér í þessa skotstöðu."
KR er með fjögurra stiga forskot á toppi Pepsi Max-deildarinnar en hver er lykillinn að góðu gengi liðsins í ár?
„Númer 1,2 og 3 sterk liðsheild sem er samsett af einstaklingum með ólíka hæfileika sem eru tilbúnir að fórna sér fyrir hvorn annan," sagði Kristinn að lokum.
Domino's gefur verðlaun
Leikmenn umferðarinnar í Pepsi Max-deild karla og kvenna fá verðlaun frá Domino's í sumar.
Sjá einnig:
Bestur í 10. umferð: Pálmi Rafn Pálmason (KR)
Bestur í 8. umferð: Valdimar Þór Ingimundarson (Fylkir)
Bestur í 7. umferð: Helgi Valur Daníelsson (Fylkir)
Bestur í 6. umferð: Steinar Þorsteinsson (ÍA)
Bestur í 5. umferð: Óskar Örn Hauksson (KR)
Bestur í 4. umferð: Bjarki Steinn Bjarkason (ÍA)
Bestur í 3. umferð: Kolbeinn Þórðarson (Breiðablik)
Bestur í 2. umferð: Torfi Tímoteus Gunnarsson (KA)
Bestur í 1. umferð: Tryggvi Hrafn Haraldsson (ÍA)
Athugasemdir