Hollenski markvörðurinn Guy Smit er genginn í raðir Vestra á Ísafirði en þetta kemur fram í tilkynningu félagsins í dag.
Smit er 29 ára gamall og var síðast á mála hjá KR en hann yfirgaf félagið eftir síðasta tímabil.
Hann kom fyrst til landsins árið 2020 og lék þá með Leikni í Lengjudeildinni við góðan orðstír áður en hann samdi við Val tveimur árum síðar.
Smit spilaði 10 leiki með Val sumarið 2010 en var settur á bekkinn eftir að Frederik Schram var keyptur og síðar settur á sölulista.
Hollendingurinn gekk í raðir ÍBV á láni frá Val sumarið 2023 og spilaði þá 18 leiki í Bestu deildinni er Eyjamenn féllu niður í Lengjudeildina. Eftir tímabilið samdi hann við KR.
Hann átti erfitt uppdráttar með KR fyrri hluta tímabilsins en var gríðarlega öflugur í lokakaflanum. Eftir tímabilið fór hann í viðræður við KR um nýjan samning, en ekki náðist samkomulag og fór því svo að hann yfirgaf félagið þegar samningur hans rann út þann 16. nóvember.
Smit fór meðal annars á reynslu hjá hollenska félaginu Roda JC, sem spilar í næst efstu deild, en er nú kominn aftur til Íslands og hefur samið um að leika með Vestra á komandi tímabili.
Hann mun því taka við keflinu af sænska markverðinum William Eskelinen sem fór frá Vestra eftir síðustu leiktíð og samdi við AC Oulu í Finnlandi.
Athugasemdir