Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   fös 02. október 2020 13:30
Magnús Már Einarsson
„Langlengsti aðdragandi að leik í íslenskri fótboltasögu"
Icelandair
Erik Hamren á fréttamannafundi í dag.
Erik Hamren á fréttamannafundi í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúmenar fagna marki á EM U21 árið 2019.
Rúmenar fagna marki á EM U21 árið 2019.
Mynd: Getty Images
„Við viljum fara á EM. Það hefur verið aðalmarkmiðið síðan við tókum við þessu starfi. Við náðum því ekki í undankeppni EM en núna er það umspilið. Okkur hefur hlakkað til að spila í umspilinu og við höfum beðið eftir þessu síðan við spiluðum gegn Moldavíu í nóvember í fyrra. Þetta hefur verið löng bið," sagði Erik Hamren, landsliðsþjálfari Íslands, á fréttamannafundi í dag.

Ísland mætir Rúmeníu á fimmtudag í undanúrslitum í umspili um sæti á EM á næsta ári. Leikurinn átti upphaflega að fara fram í mars en honum var frestað þá vegna kórónuveiru faraldursins.

„Undirbúningur hefur staðið yfir í tíu mánuði og þetta er langlengsti aðdragandi að leik í íslenskri fótboltasögu," sagði Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, á fréttamannafundinum í dag.

„Við höfum hugsað þennan leik fram og til baka og höfum séð hann oft fyrir okkur í hausnum. Við höfum aldrei átt jafn mikið magn af upplýsingum um eitt fótboltalið en við höfum aldrei séð þá live. Það er sérstakt að spila við lið sem við höfum ekki séð sjálfir live eða njósnarar frá okkur. Þetta hefur verið sérstakur undirbúningur."

Rúmenar eru í 34. sæti á heimslista FIFA í dag. Mirel Radoi tók við sem landsliðsþjálfari Rúmeníu í desember síðastliðnum en hann þjálfaði áður U21 árs landsliðið með eftirtektarverðum árangri.

U21 lið Rúmeníu gerði frábæra hluti á EM árið 2019 undir stjórn Radoi en liðið vann meðal annars England 4-2. Nokkrir leikmenn úr þeim hópi eru í stóru hlutverki hjá Rúmenum í dag.

„Þetta er jafnt og gott lið. Þeir eru ekki með marga leikmenn sem spila í stærstu deildum heims en þeirra sterkustu og mikilvægustu leikmenn eru allir að spila lykilhlutverk í hverri viku fyrir sín félagslið," sagði Freyr.

Rúmenía
Meðalaldur í hópnum: 28 ár
Meðalfjöldi landsleikja: 19 leikir

Ísland
Meðalaldur í hópnum: 29 ár
Meðalfjöldi landsleikja: 44 leikir
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner