Liverpool býður Trent væna launahækkun - PSG og Villa gætu skipst á leikmönnum - Zirkzee vill fara frá Man Utd
   fös 03. janúar 2025 18:48
Ívan Guðjón Baldursson
Líklegast að Víkingur spili heimaleikinn í Kaupmannahöfn
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur R. hefur gefið frá sér tilkynningu þess efnis að heimaleikur liðsins gegn Panathinaikos verði líklega spilaður í Kaupmannahöfn.

Það er rétt rúmur mánuður þar til Víkingur mætir gríska stórveldinu í útsláttarkeppni Sambandsdeildar Evrópu, þar sem sigurliðið fer áfram í 16-liða úrslit en tapliðið lýkur keppni í 16.-24. sæti.

Liðin mætast í tveimur leikjum en enginn fótboltavöllur á Íslandi þykir hæfur til að hýsa þessa viðureign og því hefur UEFA skipað Víkingi að spila heimaleikinn sinn í öðru landi.

Víkingar skoðuðu að spila í Færeyjum en UEFA gaf ekki leyfi fyrir því vegna þeirrar miklu þoku sem getur myndast í Færeyjum og lokað flugumferð.

Heimaleikur Víkings fer fram föstudaginn 13. febrúar og er Víkingur að skoða að spila leikinn í Osló, Helsinki, Svíþjóð eða í Kaupmannahöfn.

Leikvangur í Kaupmannahöfn er kominn lengst í ferlinu hjá Víkingum en ekkert er öruggt sem stendur. Það eru þó mestar líkur á því að heimaleikur Víkings fari fram í Kaupmannahöfn, en þar eru ýmsir vellir sem koma til greina.

Seinni leikurinn fer fram fimmtudaginn 20. febrúar í Aþenu, á heimavelli Panathinaikos.

Náist samkomulag við danska félagið í Kaupmannahöfn verður þó að skoða hvort leikurinn gegn Panathinaikos megi fara fram 13. febrúar vegna þess að FCK á heimaleik í Kaupmannahöfn sama dag. Mögulegt er að dönsk yfirvöld vilji ekki hafa báða þessa leiki á sama degi í sömu borg og þá myndi Víkingur spila 'heimaleikinn' við Panathinaikos 11. febrúar.

Þá gæti seinni leikurinn einnig verið færður fram um einn eða tvo daga, ef Olympiakos mun eiga heimaleik í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar. Það kemur þó ekki í ljós fyrr en eftir að deildarkeppni Evrópudeildarinnar lýkur.

„Knattspyrnudeild Víkings hefur unnið myrkranna á milli við að finna bestu lausnina og við munum tilkynna staðfestan leikstað um leið og við mögulega getum. Fylgist vel með hér á samfélagsmiðlum okkar og áfram Víkingur!" segir meðal annars í tilkynningu Víkings.

   27.12.2024 11:43
Víkingar mega ekki spila í Færeyjum - Skoða möguleika í Skandinavíu

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner