Kristinn Steindórsson, framherji Breiðablik, skoraði og lagði upp mark í 4-0 sigri Blika í dag er þeir sigruðu Leikni Reykjavík á Kópavogsvelli.
Lestu um leikinn: Breiðablik 4 - 0 Leiknir R.
„Þetta var mjög gott. Við vissum að þetta yrði erfiður leikur eins og við fengum að kynnast í annarri umferð, en eftir frekar kærulausan fyrri hálfleik - þrátt fyrir að hafa skorað tvö mörk - þá stjórnuðum við þessu í seinni hálfleik og gerðum þetta vel," sagði Kristinn í viðtali eftir leik.
Hvernig var þessi leikur öðruvísi frá leiknum sem endaði 3-3 í Breiðholtinu?
„Ég veit það ekki alveg, held við höfum bara spilað heilt yfir betur í dag. Við komum inn í þennan leik með meira sjálfstraust því í seinni leiknum vorum við nýbúnir að tapa fyrir KR í fyrsta leik. Ég held að við vissum bara betur hvað við ætluðum að gera."
Kiddi spilaði í innanundirpeysu allan leikinn meðan það var bongó blíða á Kópavogsvelli.
„Ég er með tvö tiltölulega ný húðflúr á vinstri hendinni þannig það var eiginlega ástæðan. Ég bjóst ekki við að besti dagur sumarsins væri í dag en það er eins og það er."
Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan þar sem Kiddi talar t.d. um Evrópuævintýrið sem Blikar takast á í næstu viku.
Athugasemdir